Íslenski boltinn

Helgi: Allt samkvæmt áætlun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis.
Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis. Vísir/Bára
Helgi Sigurðsson var ánægður með sína menn í Fylki sem höfðu betur gegn Þrótti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.

„Ég er mjög sáttur við strákana. Það var gott að skora tvö mörk snemma leiks og þetta varð þægilegra við það. Þriðja markið kom okkur svo í enn betri stöðu og það var bara spurning eftir það að keyra þessu heim,“ sagði Helgi.

„Það er stutt á milli leikja og leikmenn orðnir þreyttir. Ég náði hins vegar að hvíla leikmenn í dag og taka menn snemma út af. Þetta var því allt samkvæmt áætlun.“

Þetta var þriðji sigur Fylkis á tímabilinu en tveir þeirra hafa komið gegn Inkasso-liðum í bikarnum.

„Það má ekki gleyma því að við höfum verið að spila við lið eins og FH, Val og KR og þó svo að við höfum ekki unnið þá leiki erum við að spila vel. Það er engin hörmung að gera jafntefli í þeim leiknum. Ef við ætlum okkur hins vegar að taka næsta skref og fara í einhverja alvöru baráttu hinum megin á töflunni þá þurfum við að vinna svona leiki,“ segir Helgi sem bætir við að meiðsli leikmanna hafi sett strik í reikninginn.

„Það hefur reynt á hópinn en hann hefur staðið sig frábærlega. Ég kvíði því ekki framtíðinni,“ sagði hann.

„Þetta snerist um að vinna leikinn og komast áfram. Eins og ég sagði við strákana þá er ekki nóg að bara tala um að spila vel. Við verðum að fara að vinna leiki og náðum því í dag. Við vitum vel hvað býr í liðinu okkar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×