Enski boltinn

Töframaðurinn Potter tekinn við Brighton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Graham Potter er mættur í ensku úrvalsdeildina.
Graham Potter er mættur í ensku úrvalsdeildina. vísir/getty
Brighton & Hove Albion gerði í dag Graham Potter að nýjum knattspyrnustjóra félagsins og gerði við hann fjögurra ára samning en Potter tekur við starfinu af Chris Hougton sem var tekinn eftir tímabilið.

Potter er 44 ára gamall og kemur til Brighton, sem hélt sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni, frá Swansea í B-deildinni þar sem hann var í eina leiktíð eftir komu sína frá Östersund í Svíþjóð.

Englendingurinn vakti gríðarlega athygli hjá Östersund þar sem að hann fékk tækifærið árið 2010 en það var fyrsta þjálfarastarfið hans á ferlinum. Hann tók við smáliðinu Österstund í C-deildinni og féll niður í D-deildina á fyrsta ári en eftir það hófst ævintýraleg upprisa.

Potter stýrði Östersund upp úr D-deildinni í úrvalsdeildina í Svíþjóð á fimm árum og kom liðinu alla leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar tímabilið 2017/2018. Þar var Östersund í riðli með Athletic Bilbao, Herthu Berlín og Zorya Luhansk frá Úkraínu og komst upp úr riðlinu.

Potter vakti ekki minni athygli þegar að Österstund vann útileikinn á Emirates-vellinum gegn Arsenal í 32 liða úrslitunum, 2-1, en liðið tapaði heimaleiknum 3-0 og ævintýrið á enda.

Eðlilega fóru enskir fjölmiðlar að leika sér með nafnið hans og var hann kallaður Töframaðurinn Potter með tilvísun í sjálfan Harry Potter.

Potter þykir einn mest spennandi fótboltaþjálfari heims en hann er mjög taktískur og sóknarþenkjandi en Östersund-liðið hans spilaði skemmtilegan fótbolta. Nú fær hann tækifæri í bestu deild heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×