Erlent

Kom 400 stúdentum rækilega á óvart

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Robert F. Smith er milljarðarmæringur.
Robert F. Smith er milljarðarmæringur. Getty/Robert Ingram
Bandaríski milljarðamæringurinn Robert F. Smith kom útskriftarárganginum við Morehouse-háskólann í Bandaríkjunum heldur betur á óvart í gær. Í útskriftarræðu sem hann hélt við útskriftina lofaði hann því að greiða niður námslán allra nemenda í árganginum að fullu.

Tilkynning Smith kom nemendunum 400 mjög á óvart en mikill fögnuður braust út þegar Smith tilkynnti hvað hann hygðist gera. Óvíst er um hversu háa upphæð er að ræða en í frétt BBC segir að gera megi ráð fyrir að það muni kosta minnst 10 milljónir dollara, um 1,2 milljarða króna.

Aaron Mitchom, einn af þeim sem mun græða á ákvörðun Smith, segist hafa grátið er hann áttaði sig á því hvað Smith hafði sagt í ræðunni. Sjálfur skuldar hann 200 þúsund dollara í námslán, um 25 milljónir króna.

„Fyrir hönd þeirra átta kynslóða fjölskyldu minnar sem hafa dvalið hér í landinu, þá ætlum við að setja smá bensín á strætisvagninn ykkar,“ sagði Smith.

Smith hagnaðist mjög er hann fjárfesti í tæknifyrirtækjum í upphafi þessarar aldar en eignir hans eru metnar á fimm milljarða dollara, rúmlega 600 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×