Erlent

Mannréttindasamtök gagnrýna Bolsonaro Brasilíuforseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro forseti hefur gefið út tilskipun um að rýmka skotvopnalöggjöf Brasilíu.
Bolsonaro forseti hefur gefið út tilskipun um að rýmka skotvopnalöggjöf Brasilíu. Vísir/EPA

Stefna Jairs Bolsonaro, forseta Brasilíu, mun leiða til fleiri morða í Brasilía og svipta suma landsmenn mannréttindum, að mati mannréttindasamtakanna Amnesty International. Samtökin nefna tilslakanir á vopnalögum, strangari fíkniefnalöggjöf og tilraunir til að hafa áhrif á störf félagasamtaka í Brasilíu.

Hægriharðlínumaðurinn Bolsonaro tók við embætti forseta í byrjun árs eftir afgerandi kosningasigur í fyrra. Jurema Werneck, forstöðumaður Amnesty í Brasilíu, segir að samtökin hafi varað við ógninni sem mannréttindum stafaði af Bolsonaro þegar hann var kjörinn.

„Við erum að byrja að sjá að áhyggjur okkar voru á rökum reistar,“ segir Werneck.

Orðræða Bolsonaro gegn mannréttindum sem hann hefur ástundað allan stjórnmálaferill sinn sé nú að verða að beinhörðum aðgerðum sem ógni og brjóti á mannréttindum allra Brasilíumanna. Í opnu bréfi sem Amnesty birti í dag kemur einnig fram að Bolsonaro brjóti á réttindinum frumbyggja og samfélaga afkomenda þræla, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Jurema Werneck, forstöðumaður Amnesty International í Brasilíu, þegar hún ræddi við fréttamenn á þriðjudag.

Ráðuneyti málefna kvenna, fjölskyldna og mannréttinda í ríkisstjórn Bolsonaro hafnaði ásökunum Amnesty. Engar vísbendingar væru um að þær byggðust á staðreyndum eða raunverulegum atburðum. Ráðuneytið væri tilbúið að ræða við samtökin til að sýna þeim fram á að ásakanirnar ættu ekki við rök að styðjast.

Tilskipun Bolsonaro um að rýmka skotvopnalöggjöfina hefur reynst umdeild í Brasilíu. Ríkisstjórar þrettán af 26 ríkjum Brasilíu birtu opið bréf þar sem þeir mótmæltu tilskipuninni á þriðjudag. Þeir telja hana aðeins eftir að auka á ofbeldisölduna í landinu.

Með tilskipuninni geta einstaklingar keypt meira magn af skotfærum og ákveðnir hópar mega ganga um vopnaðir án þess að þurfa sérstakt leyfi, þar á meðal alríkislögreglumenn, vöruflutningabílstjórar, kjörnir fulltrúar og blaðamenn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.