Innlent

Greitt fyrir útflutningi á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaugur Þór og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína.
Guðlaugur Þór og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína. Stjórnarráðið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, undirrituðu í dag þrjár nýjar bókanir við fríverslunarsamning Íslands og Kína. Með bókununum opnast ný tækifæri fyrir útflutning á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína en greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins. 

Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, er staddur hér á landi vegna undirritunar á þremur nýjum bókunum við fríverslunarsamning Íslands og Kína. Bókanirnar varða viðurkenningu á heilbrigðisstöðlum fyrir fiskeldisafurðir, fiskimjöl og lýsi og ull og gærur. Þær voru undirritaðar í höfuðstöðvum Matvælastofnunar á Selfossi en þær eru afrakstur samstarfs Matvæla­stofnunar, atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins og utan­ríkis­ráðu­neytisins við yfirvöld tolla- og dýraheilbrigðismála í Kína. Einnig var undirritað samkomulag um eflingu samstarfs á sviði heilbrigðiseftirlits.

„Í ferð minni til Kína í fyrrahaust skrifuðum við undir bókun um heilbrigðisvottun á íslensku lambakjöti og því má segja að við séum að taka upp þráðinn síðan þá. Með undirrituninni í dag er verið að stíga enn eitt skrefið í að liðka fyrir framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Kína,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og Ni voru tollamál, heilbrigðismál og útflutningur landbúnaðarvara frá Íslandi til Kína efst á baugi. Auk þess ræddu þeir hvernig betur mætti nýta fríverslunarsamning ríkjanna, en fimm ár eru liðin frá gildistöku samningsins á þessu ári.

Kínverski tollamálaráðherrann heimsótti forseta Íslands og ræddu þeir meðal annars viðskipti ríkjanna og samstarf þeirra á ýmsum sviðum, auk sameiginlegrar baráttu gegn loftslagsbreytingum. Ni átti einnig fundi í fjármálaráðuneytinu, sjávarútveg- og landbúnaðarráðuneytinu og með samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá heimsótti hann meðal annars fiskeldisstöð Stofnfisks á Suðurnesjum og sauðfjárbændur í Eystra-Geldingaholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×