Fótbolti

Rúnar Alex og félagar tryggðu sig í umspil eftir dramatík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar í leik með Dijon í vetur.
Rúnar í leik með Dijon í vetur. vísir/getty
Rúnar Alex Rúnarsson og félagar í Dijon náðu að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti í frönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð og fara því ekki beint niður í B-deildina.

Dijon þurfti að vinna sinn leik til þess að forða sér beint frá falli og treysta á að Caen myndi tapa á heimavelli gegn Bordeaux til þess að tryggja sér 18. sætið sem tryggir umspil.

Það byrjaði ekki vel fyrir Dijon í kvöld því á 33. mínútu kom Bafode Diakite Toulouse yfir en Rúnar Alex gat ekkert gert í markinu. Hann hafði átt góðar markvörslur fyrir markið.

Jöfnunarmark Naim Sliti jafnaði fyrir Dijon á 58. mínútu og fjórum mínútum síðar kom Julio Tavares Dijon í 2-1. Fyrst um sinn var markið dæmt af vegna rangstöðu en eftir VARsjána var markið dæmt gilt.

Á sama tíma tapaði Caen gegn Bordeaux 1-0 og endar því Dijon í 18. sætinu. Því fara þeir ekki beint niður í B-deildina og eru á leið í umspil um áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.

Dijon mætir Lens í tveimur leikjum um sæti í frönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Fyrri leikurinn fer fram 30. maí á heimavelli Lens en liðin mætast svo á ný 2. júní.







PSG tapaði 2-1 fyrir Reims á útivelli í kvöld en Kylian Mbappe skoraði  mark PSG. Þeir unnu deildina að lokum með sextán stiga mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×