Innlent

Tvö umferðarslys á Vesturlandsvegi síðdegis

Sylvía Hall skrifar
Umferðarslysin urðu með tveggja tíma millibili.
Umferðarslysin urðu með tveggja tíma millibili. Vísir/Vilhelm
Rúmlega fimmtíu verkefni komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í dag en í flestum tilfellum var um aðstoð að ræða eða annars konar tilkynningar.Á fjórða tímanum varð umferðarslys á Vesturlandsvegi við Korputorg þar sem þurfti að fjarlægja eina bifreið með kranabíl en engin meiðsli urðu á fólki. Tæplega tveimur klukkustundum síðar var tilkynnt um annað umferðarslys á Vesturlandsvegi við Mosfellsbæ þar sem bifreið var ekið aftan á aðra. Var önnur bifreiðin óökufær og urðu minniháttar áverkar á farþegum.  Rétt fyrir klukkan sjö í kvöld barst lögreglu tilkynning um að ekið hefði verið á reiðhjólamann í Elliðaárdal en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu slapp reiðhjólamaðurinn með minniháttar meiðsli. Á sama tíma í kvöld var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í Mosfellsbæ. Talsverðir áverkar voru í andliti brotaþola eftir árásina og gistir árásarmaðurinn fangageymslur.Á fimmta tímanum var tilkynnt um slys í Hafnarfirði þar sem einstaklingur hafði fengið heitan vökva í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut fyrsta stigs bruna. Þá kom upp eldur í útihitara við Kjarvalsstaði en engar skemmdir urðu á öðru en útihitaranum sjálfum.Um klukkan hálf níu í kvöld barst svo tilkynning um þjófnað í Breiðholti en brotist hafði verið í geymslu í hverfinu. Voru tveir handteknir vegna málsins og gista fangageymslur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.