Erlent

Skemmtigarður um örkina hans Nóa skemmdist í flóði

Kjartan Kjartansson skrifar
Gestir virða fyrir sér viðarörkina sem á að vera eftirl´king af örkinni hans Nóa í Williamstown í Kentucky.
Gestir virða fyrir sér viðarörkina sem á að vera eftirl´king af örkinni hans Nóa í Williamstown í Kentucky. AP/John Minchillo
Eigendur kristilegs skemmtigarðs í Kentucky í Bandaríkjunum hafa stefnt tryggingafyrirtæki sínu til að krefjast bóta vegna skemmda sem urðu á garðinum í flóðum eftir úrhellisrigningar. Helsta aðdráttarafl skemmtigarðsins er 155 metra löng eftirlíking af örkinni hans Nóa.

Skemmdirnar urðu á vegi í garðinum þegar aurskriður féllu á hann í miklu úrhelli árið 2017 og aftur í fyrra. Vegurinn hefur síðan verið lagfærður en tryggingarfyrirtækið neitar að bæta tjónið, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar. Eigendur skemmtigarðsins krefjast tæplega milljónar dollara, jafnvirði um 124 milljóna íslenskra króna.

Arkarfundurinn (e. Ark Encounter) opnaði árið 2016 og er örkin sjálf þekktasti sýningargripurinn. Hún skemmdist ekki í flóðunum. Í Biblíusögunni bjargaði maður að nafni Nói dýrum jarðarinnar frá hamfaraflóði guðs sem vildi með því refsa mannkyninu.

Samtökin sem reka skemmtigarðinn aðhyllast svokallað sköpunarkenningu um að jörðin sé aðeins nokkur þúsund ára gömul. Samkvæmt stofnanda þeirra reikuðu risaeðlur um jörðina í tíð mannkynsins. Í raun dóu síðustu risaeðlurnar út fyrir um 66 milljónum ára. Mannkynið kom hins vegar aðeins til sögunnar á síðustu tvö hundruð þúsund árunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×