Erlent

Fylgdist með aftöku raðmorðingjans sem hún slapp frá

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Bobby Joe Long hrelldi Tampa flóann árið 1984.
Bobby Joe Long hrelldi Tampa flóann árið 1984.
Kona sem slapp úr haldi raðmorðingja fylgdist með því þegar hann var tekinn af lífi í Flórída. Frá þessu er greint á vef Sky News.

Lisa Noland var aðeins 17 ára gömul þegar henni var nauðgað margsinnis af Bobby Joe Long árið 1984.

Í vitnaherbergi í fangelsi Flórídafylkis kom hún sér fyrir á stað þar sem hún vonaðist til að hann sæi hana.

„Ég vildi horfa í augun á honum,“ sagði hún. „Ég vildi að ég væri fyrsta manneskjan sem hann sæi. Því miður opnaði hann ekki augun. Það var huggandi að vita að þetta væri að gerast.“

Eftir að horfa á hann deyja af völdum banvænnar sprautu sagðist hún hafa farið að gráta.

„Róin sem færðist yfir mig var mögnuð tilfinning,“ bætti hún við.

Annað vitni klæddist stutterma skyrtu með mynd af einu fórnarlamba Longs framan á og orðunum „horfin en þeim verður ekki gleymt.“

Á bakhlið skyrtunnar voru myndir af öllum tíu fórnarlömbunum og á stóð „Þau sem skipta máli.“

Long hrelldi Tampa flóa svæðið í átta mánuði árið 1984 og skildi við fórnarlömb sín í ógeðfelldum stellingum. Flestar þeirra voru kyrktar en sumar skornar á háls eða höfðu hlotið höfuðhögg.

Eftir að hann játaði glæpi sína hlaut hann 28 lífstíðardóma og einn dauðadóm fyrir morðið á Michelle Simms sem var 22 ára gömul.

Skildi fingraför og túrblóð eftir sem sönnunargögn

Lögreglan hafði ekki margar vísbendingar til að vinna með þar til Lisu Noland var rænt af Long. Hann ógnaði henni með byssu fyrir utan kirkju og keyrði burt með hana.

Lisa vissi hvernig hún átti að bregðast við þar sem hún hafði verið misnotuð um árabil af kærasta ömmu sinnar.

Hún vissi að ef hún sýndi Long mótstöðu væri hætta á að hann reiddist.

Lisa var á blæðingum og passaði upp á að hún skildi túrblóð eftir í baksæti bílsins sem hann keyrði og þrátt fyrir að vera bundin um augun vissi hún að hann keyrði með hana á hraðbraut norður af Tampa.

Þegar þau komu að íbúðinni sem hann bjó í taldi hún tröppurnar sem hann leiddi hana upp og komst að því að íbúðin væri á annarri hæð og passaði hún að skilja eftir fingraför inni á baðherberginu.

Eftir að hafa nauðgað henni ítrekað þvoði Long hárið á Lisu, en hún greip tækifærið og spurði hann hvers vegna hann fremdi þessa glæpi. Svar hans var það að hann hataði konur vegna erfiðra sambandsslita.

Hún sagði þá við hann að hann virtist vera góður maður og að hún gæti kannski orðið kærastan hans.

Í kjölfarið sleppti hann henni úr haldi.

Í dag er hún starfsmaður fógeta embættis Hillsborough sýslu, sem hún hjálpaði á sínum tíma að handtaka Bobby Joe Long.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×