Fótbolti

Arnór fékk tíu í einkunn og sæti í liði umferðarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór skoraði fimm mörk í rússnesku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Arnór skoraði fimm mörk í rússnesku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/getty
Arnór Sigurðsson skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar CSKA Moskva vann 6-0 sigur á Krylya Sovetov Samara í lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í gær.

Arnór fékk tíu í einkunn fyrir frammistöðu sína í leiknum í gær hjá tölfræðisíðunni WhoScored.com.

Fyrir utan að skora og leggja upp mark fyrir félaga sinn í íslenska landsliðinu, Hörð Björgvin Magnússon, rötuðu allar 22 sendingarnar sem Arnór reyndi í leiknum á samherja. Þá lék hann þrisvar sinnum á leikmenn Krylya Sovetov Samara.

Tían sem Arnór fékk í einkunn skilaði honum að sjálfsögðu sæti í liði umferðarinnar hjá WhoScored. Tveir aðrir leikmenn CSKA Moskvu eru í liði umferðarinnar; Fedor Chalov og Jaka Bijol. Sá fyrrnefndi skoraði tvö mörk gegn Krylya Sovetov Samara og sá síðarnefndi skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar.

 

Arnór skoraði fimm mörk í 21 leik í rússnesku deildinni á tímabilinu. Þá skoraði hann tvö mörk í Meistaradeild Evrópu.

Skagamaðurinn og félagar hans í CSKA Moskvu enduðu í 4. sæti deildarinnar og leika í Evrópudeildinni á næsta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×