Enski boltinn

Bielsa áfram hjá Leeds

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bielsa er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Leeds.
Bielsa er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Leeds. vísir/getty
Marcelo Bielsa verður áfram við stjórnvölinn hjá Leeds United.

Argentínumaðurinn skrifaði undir tveggja ára samning við Leeds sumarið 2018. Félagið átti kost á að rifta eða framlengja samninginn eftir fyrsta tímabilið. Síðari kosturinn varð fyrir valinu.

Leeds endaði í 3. sæti B-deildarinnar í vetur og féll úr leik fyrir Derby County í undanúrslitum umspils um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Leeds var lengst af tímabils í tveimur efstu sætum deildarinnar en gaf eftir á lokasprettinum. Árangurinn var samt vel viðunandi því Leeds var nánast með sama lið og endaði í 13. sæti B-deildarinnar tímabilið 2017-18.

Bielsa hefur komið víða við á ferlinum og haft mikil áhrif á stjóra á borð við Pep Guardiola og Mauricio Pochettino.

Síðustu ár hafa verið erfið hjá Leeds en liðið lék síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2003-04.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×