Innlent

Næsti þristur verður elsta flugvél sögunnar til að komast til Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
DC 3-vélin var tilbúin frá Douglas-verksmiðjunum þann 25. október 1937.
DC 3-vélin var tilbúin frá Douglas-verksmiðjunum þann 25. október 1937. Mynd/D-Day Squadron.
DC 3-vélin, sem fór í loftið frá Narsarsuaq á Grænlandi núna í hádeginu, verður elsta flugvél sögunnar til að fljúga til Íslands, þegar hún lendir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis, tæplega 82 ára gömul. Hún er jafnframt sá þristur í heiminum sem mestan flugtíma á að baki. 

Flugvélin, sem ber skrásetningarnúmerið N18121, var smíðuð í Douglas-flugvélaverksmiðjunum í Kaliforníu fyrir Eastern Airlines-flugfélagið og er hún skráð tilbúin frá verksmiðjunum 25. október 1937. Hún verður því 81 árs og sjö mánaða þegar hún kemur, en búist er við henni til Reykjavíkur milli klukkan fjögur og fimm.

Uppfært kl. 16:35: Áætluð lending í Reykjavík er kl. 17.10, samkvæmt upplýsingum ACE FBO. 

Íslenskir flugáhugamenn, sem þekkja vel flugsöguna, eins og Baldur Sveinsson og Pétur P. Johnson, vita ekki til þess að svo gamalli flugvél hafi áður verið flogið til Íslands, og heldur ekki yfir Atlantshaf milli Ameríku og Evrópu. 

Rifja má upp að Breitling-þristurinn, sem kom hingað fyrir tveimur árum, var framleiddur árið 1940 og var því 77 ára þegar hann lenti í Reykjavík. 

Þýsk Junkers-flugvél, sem kom árið 2012, var framleidd árið 1939 og því 73 ára gömul þegar hún lenti á Íslandi.

Flugstjórnarklefinn í DC 3-vélinni.Mynd/D-Day Squadron.
Eastern Airlines-flugfélagið notaði þristinn í farþegaflugi fram á stríðsárin. Árið 1943 tók bandaríski herinn hana yfir og notaði hana um skamman tíma í þágu stríðsrekstursins en Eastern Airlines fékk hana til baka árið 1944. 

Hún var síðan notuð í margskyns atvinnuflugi hjá ýmsum flugfélögum næstu fjóra áratugi allt til ársins 1988. Henni hafði þá verið flogið 91.600 flugtíma og hafði þá sett heimsmet sem sá þristur sem lengst hafði flogið í heiminum. Metið var staðfest af Mc Donnell Douglas-fyrirtækinu. 

Flugtími vélarinnar jafngilti því að hún hefði verið samfellt 3.816 daga á lofti, eða í 10 ár og 5 mánuði. Á líftíma sínum hefur hún flogið 16,5 milljónir mílna, sem jafngildir 660 hringferðum um jörðina eða 34 ferðum til tunglsins. 

Frá 1993 hefur vélin verið í eigu einkaaðila og hún er enn að bæta heimsmetið.

 

Þessi þristur, frá árinu 1941, lenti á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi. Áformað er hann haldi brott á morgun.Vísir/KMU.
Þess má geta að síðdegis verður fræðsluganga um Öskjuhlíð og Nauthólsvík í boði Isavia undir leiðsögn Friðþórs Eydal. Á flugvellinum og í næsta nágrenni við hann eru víða merki um margvísleg umsvif á stríðsárunum. Gangan hefst við flugturninn á Reykjavíkurflugvelli kl. 17.30 og lýkur á sama stað kl. 19. Hún er liður í viðburðum vegna 100 ára afmælis flugs á Íslandi í ár. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um lendingu vélarinnar:


Tengdar fréttir

Flugkappar í útsýnisflugi með Catalina flugbáti

Þrír flugkappar fengu að fara í útsýnisflug með Catalina flugbáti yfir Reykjavík í dag. Kapparnir eiga það sameiginlegt að hafa flogið slíkum vélum þegar þær voru notaðar til farþegaflugs hér á landi á árunum eftir stríð.

Þrír þristar saman á Reykjavíkurflugvelli

Sjaldséður viðburður verður á Reykjavíkurflugvelli um sjöleytið í kvöld þegar tveir þristar á áttræðisaldri, forngripir af gerðinni Douglas DC-3, fara í samsíða flug.

Gömul Hitlers-vél í Reykjavík

Þriggja hreyfla þýsk Junkers-flugvél frá stríðsárunum, samskonar og Hitler notaði sem einkavél, lenti á Reykjavíkurflugvelli nú undir kvöld í sögulegum leiðangri yfir Atlantshaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×