Innlent

Framkvæmdastjóri Fuglaverndar segir lög um fuglavernd löngu úrelt

Sighvatur Jónsson skrifar
Maður var sektaður um 450.000 krónur fyrir að reyna að flytja egg friðaðra fugla úr landi.
Maður var sektaður um 450.000 krónur fyrir að reyna að flytja egg friðaðra fugla úr landi. fréttablaðið/anton brink
Framkvæmdastjóri Fuglaverndar vill sjá skýrari ramma til að sækja mál vegna rána á eggjum friðaðra fugla. Núgildandi lög um fuglavernd séu löngu úrelt. Endurskoðun laga um fuglavernd stendur yfir í umhverfisráðuneytinu.

Fréttablaðið greindi frá því á föstudag að maður hafi verið dæmdur til að greiða 450.000 krónur í sekt fyrir að stela eggjum friðaðra fugla og reyna að flytja þau úr landi. Maðurinn var tekinn í Norrænu árið 2017.

Hann hafði í fórum sínum 100 blásin egg sem hann hafði tínt frá fágætum og friðuðum fuglum. Forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands segir í fréttinni að ekki sé tekið nógu hart á slíkum brotum.

Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar, segir núverandi lög um fuglavernd úrelt að flestu leyti. Tímabært sé að endurskoða lögin, undirbúningur þess hafi staðið yfir í sex ár.

„Fuglavernd vildi gjarnan sjá skýrari ramma og við vonumst til þess að ný lög sem eru núna í smíðum hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu verði þannig að ramminn verði ljósari. Refsingin sem slík þarf að hæfa glæpnum en það er í fyrsta lagi mjög erfitt að sækja þessi mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×