Enski boltinn

Dóttir Mo Salah skoraði á Anfield í gær og allt varð vitlaust í Kop-stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah með dóttur sinni Mökku á Anfield í gær.
Mohamed Salah með dóttur sinni Mökku á Anfield í gær. Getty/Robbie Jay Barratt
Liverpool fagnaði ekki enska meistaratitlinum á Anfield í gær en stuðningsmenn félagsins nutu dagsins og fögnuðu góðu tímabili í leikslok eftir 2-0 sigur á Úlfunum.

Annað sætið og 97 stig er besta tímabil Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en nú munu að minnsta kosti þrjátíu ár líða á milli Englandsmeistaratitla.

Mestu fagnaðarlætin á Anfield í gær komu kannski þegar dóttir Mohamed Salah sló í gegn fyrir framan Kop stúkuna.





Mohamed Salah var þá nýbúinn að fá gullskóinn sinn og var að fagna þeirri stund með fjölskyldu sinni.

Dóttir hans heitir Makka og er fædd árið 2014. Hún var þarna með móður sinni, Maggi og fékk að næla sér aðeins í sviðsljósið og kynna sig fyrir stuðningsmönnum Liverpool liðsins.

Þegar Mohamed Salah ætlaði að fara inn í klefa þá tók stelpan sig til, náði í bolta og rakti hann í átta að Kop stúkunni.

Mohamed Salah heyrði að eitthvað var að gerast og sá þá dóttur sína skora við mikinn fögnuð stuðningsmanna Liverpool.

Það má sjá þessa skemmtilegu stund hér fyrir neðan.





Mohamed Salah fékk gullskóinn annað árið í röð en hann skoraði 22 deildarmörk á tímabilinu eins og þeir Sadio Mane og Pierre Emerick-Aubameyang.

Salah skoraði reyndar tíu mörkum færra en í fyrra en liðið náði betri árangri.

Mohamed Salah birti líka mynd af sér með dóttur sinni á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×