Enski boltinn

Íslensku liðin gætu mætt Man. Utd í Evrópudeildinni í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær mætir kannski til Íslands í júlí.
Ole Gunnar Solskjær mætir kannski til Íslands í júlí. vísir/getty

Stuðningsmenn Manchester United vita væntanlega ekki hvort þeir eigi að halda með Manchester City eða Watford í úrslitaleik enska bikarsins um helgina en úrslitin í þeim leik hafa töluverð áhrif á sumarið hjá United.

Fari svo að Manchester City vinni bikarinn fær Watford ekki sæti í Evrópudeildinni sem silfurliðið í þeirri keppni heldur fellur það í skaut næsta liðs í úrvaldeildinni sem ekki er komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Það er Manchester United.

Stuðningsmenn Manchester United ættu því að halda með City um helgina því með sigri lærisveina Guardiola fer United beint í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem „bikarmeistari“ á Englandi en það tekur þá bikarmeistarasætið.

Aftur á móti þurfa stuðningsmenn United að ákveða sig hvort þeir vilja að tímabilið hjá sínum mönnum hefjist á eðlilegum tíma eða í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eins og staðan er akkurat núna. Þá gæti United mögulega komið til Íslands.

Ef Watford verður bikarmeistari tekur það bikarmeistarasætið og United fer í Evrópudeildina þökk sé sjötta sætinu sem það náði á síðustu leiktíð og hefur þá leik sem fyrr segir í annarri umferð forkeppninnar 25. júlí.

Þar gefst stuðningsmönnum Manchester United aftur á móti kannski möguleiki að sjá hetjurnar sínar með berum augum því þar verður United í pottinum með þeim íslensku liðum sem að komast í gegnum fyrstu umferðina.

Breiðablik, KR og Stjarnan mæta öll til leiks í fyrstu umferðinni en í fyrra komust tvö af þremur íslensku liðunum áfram í aðra umferð en á því stigi gæti Manchester United beðið.

Það fer því eftir því hvernig fer á laugardaginn í úrslitaleik enska bikarsins hvort að Ole Gunnar Solskjær hefji mögulega leik á sinni fyrstu heilu leiktíð í lok júlí og það kannski á Íslandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.