Erlent

Segir Ísland sanna að smáríki geta verið leiðtogar á heimsvísu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar

„Tilfinningin var að Bandaríkin væru að afsala sér leiðtogahlutverki sínu,“ John Fisher, framkvæmdarstjóri Genfarskrifstofu Mannréttindavaktarinnar (Human Rights Watch), um brotthvarf Bandaríkjanna úr Mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna í fyrra. Ísland var í kjölfarið kjörið í sæti Bandaríkjanna.

„Við vorum hrædd um að fleiri ríki myndu fylgja Bandaríkjunum úr ráðinu. Staðreyndin varð þó sú að þegar Ísland tók yfir sæti Bandaríkjanna sýndi það og sannaði að smáríki geta haft mikil áhrif þegar kemur að hnattrænni forystu.“

John segir að Ísland hafi til dæmis farið fyrir samþykktum ráðsins sem snúa að mannréttindabrotum víða um heim.

„Við höfum séð Ísland fara fyrir sameiginlegri yfirlýsingu um mannréttindabrot í Sádi Arabíu,“ segir hann. „Til dæmis um morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi á ræðismannaskrifstofu Sádi Arabíu í Istanbúl og vakið athygli á málum baráttufólks fyrir kvenréttindum í Sádi Arabíu sem hafa verið fangelsuð og pyntuð. Ísland hefur einnig farið fyrir nokkrum sameiginlegum yfirlýsingum sem fjalla um morð á um 27 þúsund manns fyrirskipuð af Duterte forseta í Filippseyjum í svokölluðu stríði gegn fíkniefnum.“

Ísland hefur verið leiðandi á vettvangi Mannréttindaráðsins í að gagnrýna ríki á borð við Sádi Arabíu og Filippseyjar.EPA

Ráðið hefur gjarnan sætt gagnrýni fyrir það að ríki sem stunda mannréttindabrot beiti sér innan ráðsins. Sádi Arabía, Filippseyjar og Kína eiga til dæmis sæti í ráðinu. Dæmi er um að ríki á borð við þessi standi í vegi fyrir eða útvatni samþykktir sem snýr að brotum sem þau stunda. John telur að meðlimir Mannréttindaráðsins eigi að ganga undir aukið mannréttindaeftirlit til að tryggja trúverðugleika þess. Hann vonast til að Ísland beiti sér í slíkum umbótum.

„Það er mikið verk fyrir stafni,“ segir hann. „Það þarf að tryggja að þau ríki sem stundi mannréttindabrot séu undir auknu eftirliti og ef ríki eins og Ísland stígur fram munu fleiri ríki fylgja eftir og leggja sitt af mörkum til að þau ríki sem eiga sæt í ráðinu og stunda mannréttindabrot aðhyllist sömu reglur og aðrir.“

Fastlega má reikna með stuðningi Íslands við slíkar hugmyndir en Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, var á svipuðum nótum í ræðu sem hann flutti á fundi Mannréttindaráðsins í febrúar síðastliðnum.

„Ríki sem eiga sæti í ráðinu ættu að ganga fram af góðu fordæmi og reikna með því að þeirra eigin afrek í mannréttindamálum verði til sérstakrar skoðunar á meðan aðildartíma þeirra stendur.“


Tengdar fréttir

Ísland kjörið í mannréttindaráðið í dag

Utanríkisráðherra segir stöðuna þá æðstu sem Ísland hefur fengið á alþjóðavettvangi. Staðan muni kalla á málamiðlanir en gildin breytist ekki. Deildarstjóri mannréttindamála segir aðstæðurnar sem leiddu að kjörinu sérstakar.

Ísland gefur kost á sér í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Ísland gefur kost á sér í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Samstaða hefur náðst í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum um að Ísland gefi kost á sér til að taka sæti Bandaríkjanna í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Ísland hefur frumkvæði að ákúrum gegn Sádum

Í sameiginlegri yfirlýsingu ætla Evrópuríki að frumkvæði Íslands að hvetja Sáda til að sleppa kvennréttindasinnum og vinna með rannsakendum SÞ á morðinu á Jamal Khashoggi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.