Erlent

Greiða atkvæði um herta skotvopnalöggjöf

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Bern, höfuðborg Sviss.
Frá Bern, höfuðborg Sviss. Getty/Bloomberg
Svisslendingar ganga nú til atkvæðagreiðslu til að úrskurða um hvort herða eigi skotvopnalöggjöf landsins og samræma við löggjöf sem gildir í nágranna ríkjum landsins. AP greinir frá.

Verði tillagan samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni myndu skotvopnaeigendur neyðast til þess að sækja reglubundin námskeið, sérstök leyfi þyrfti fyrir eignarhaldi á hálf-sjálfvirkum skotvopnum og númera þyrfti ákveðna hluta skotvopna til þess að auðvelda yfirvöldum að rekja vopnin.

Stuðningsmenn tillögunnar, sem eru meðal annars framkvæmdavald og löggjafarvald Sviss, segja að samskonar löggjöf hafi verið tekin upp í Evrópusambandinu eftir mannskæðar hryðjuverkaárásir í Frakklandi, mikilvægt sé að taka lögin upp í Sviss til þess að tryggja öflugt samstarf Sviss við önnur ríki Schengen sáttmálans.

Mikil hefð er fyrir því að mál fari í þjóðaratkvæði í Sviss, landi þar sem skotvopnaeign er mikil og skotveiði er algeng dægrastytting. Herskylda er í alparíki og mega hermenn, sem lokið hafa herskyldu taka skotvopn sín, sem þeir höfðu til umráða í hernum, með sér heim að tíma þeirra loknum.

Andstæðingar lagabreytinganna segja að löggjöfin muni hafa lítil sem áhrif á hryðjuverkastarfsemi og muni þess heldur hafa íþyngjandi áhrif á löghlýðna skotvopnaeigendur í landinu.

Samkvæmt AP styðja tveir þriðju hlutar kjósenda lagabreytingarnar samkvæmt skoðanakönnunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.