Erlent

Einn eft­ir­lif­end­a Col­umb­in­e-fjöld­a­morð­ann­a lát­inn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér sést Eubanks á minningarathöfn um fórnarlömbin í Columbine. Myndin er tekin 25. apríl 1999, fimm dögum eftir árásina.
Hér sést Eubanks á minningarathöfn um fórnarlömbin í Columbine. Myndin er tekin 25. apríl 1999, fimm dögum eftir árásina. Bebeto Matthews/Getty
Austin Eubanks, einn eftirlifenda Columbine-fjöldamorðanna í Bandaríkjunum er látinn, 37 ára að aldri. Hann fannst látinn að heimili sínu í Colorado í gær.

Eubanks var einn þeirra sem lifði af þegar tveir unglingsdrengir, þeir Dylan Klebold og Eric Harris, réðust inn í Columbine-framhaldsskólann í Colorado og skutu þar tólf nemendur og einn kennara til bana. Báðir voru drengirnir nemendur við skólann. Árásin átti sér stað í apríl 1999.

Eubanks var bæði skotinn í aðra höndina og annað hnéð. Eftir árásina ánetjaðist hann sterkum verkjalyfjum, en sú fíkn leiddi hann út í önnur og sterkari fíkniefni. Seinna á lífsleiðinni vann Eubanks sigur á fíkninni og helgaði líf sitt því að aðstoða aðra í baráttunni við fíknivanda.

Lögregluyfirvöld í Routt-sýslu, hvar Eubanks bjó, segjast ekki telja að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Eubanks verður krufinn á morgun í von um að hægt verði að segja til um dánarorsök hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×