Innlent

Sjö af hverjum tíu innflytjendum vilja persónulega þjónustu

Sighvatur Jónsson skrifar
Nær fjórðungur íbúa Reykjanesbæjar eru erlendir ríkisborgarar.
Nær fjórðungur íbúa Reykjanesbæjar eru erlendir ríkisborgarar. Mynd/Reykjanesbær
Sjö af hverjum tíu innflytjendum vilja fá persónulega þjónustu en ekki eingöngu þjónustu í gegnum síma eða tölvu. Þetta er meðal niðurstaðna í nýju meistaraverkefni um bætta innflytjendaþjónustu í Reykjanesbæ. Forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum segir þörf á því að geta veitt innflytjendum margvíslega þjónustu á einum stað.

Verkefnið var unnið í meistaranámi HR í verkefnastjórnun í samstarfi við Vinnumálastofnun á Suðurnesjum og fjölmenningarfulltrúa Reykjanesbæjar. Verkefnið ber yfirskriftina Betri þjónusta við innflytjendur.

Greind var þörf á þjónustu við innflytjendur á Suðurnesjum. Litið er til Fjölmenningarstofu á Ísafirði sem var stofnuð fyrir nokkrum árum. Hlutfallslega eru innflytjendur flestir í Reykjanesbæ, þeir nema nær fjórðungi íbúa þar.

Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, segir þörf á því að innflytjendur geti sótt þjónustu og upplýsingar á einn stað. Reynslan sýni að innflytjendur leiti til Vinnumálastofnunar ekki vitandi hvar þeir eigi að sækja ýmsa þjónustu.

Hildur segir niðurstöður verkefnisins verða kynntar fulltrúum sveitarfélaga á Suðurnesjum. Margar góðar hugmyndir hafi verið settar fram, meðal annars um færanlega þjónustumiðstöð.

„Að hafa bíl sem keyrir á milli, skrifstofu á hjólum, sem myndi aðstoða fólk. Það eru margir sem eru ekki með bíl eða annað farartæki til að ferðast á milli og strætósamgöngur ekki alltaf hentugar. Þannig að það er mjög góð hugmynd sem kom út úr þessu,“ segir Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×