Erlent

Cortizo nýr forseti í Panama

Atli Ísleifsson skrifar
Laurentino Cortizo hefur áður gegnt embætti landbúnaðarráðherra Panama.
Laurentino Cortizo hefur áður gegnt embætti landbúnaðarráðherra Panama. Vísir/EPA
Laurentino Cortizo, kallaður „Nito“, hefur unnið sigur í forsetakosningunum í Panama sem fram fóru í gær. Frá þessu greinir kjörstjórn landsins þegar búið er að telja 95 prósent atvæða.

Cortizo er fyrrverandi landbúnaðarráðherra landsins og fulltrúi Lýðræðislega byltingarflokksins (PRD). Cortizo hlaut 33 prósent atkvæða og var mjótt á munum, en fulltrúi flokksins Lýðræðislegrar breytingar (CD), Romulo Roux, hlaut 31 prósent atkvæða.

Romulo Roux hefur enn ekki viðurkennt ósigur sinn. Líkt og á Íslandi þarf forsetinn í Panama ekki að vera kjörinn með meirihluta atkvæða á bakvið sig. Ekki er gripið til síðari umferðar hljóti enginn hreinan meirihluta í fyrri umferðinni. Kjörstjórn á enn eftir að gefa út lokatölurnar í kosningunum.

Kosningabaráttan hefur einkennst af spillingarmálum tengdum brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht og málum tengdum Panamaskjölunum.

Nýr forseti mun taka við embættinu af Juan Carlos Varela sem hefur gegnt embættinu frá 2014. Stjórnarskrá landsins kom í veg fyrir að hann byði sig fram að nýju.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.