Fótbolti

Stelpur í Síerra Leóne í íslenska landsliðsbúningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar í íslenska landsliðsbúningnum.
Stelpurnar í íslenska landsliðsbúningnum. Mynd/KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands sendi íslenska landsliðsbúninginn til kvennaliðs í Síerra Leóne í Afríku og áhugasamir geta lagt stelpunum lið.

Það er hægt að sjá stelpurnar í íslenska landsliðsbúningnum hér á myndinni fyrir ofan. 

Verkefnastjórar Soroptimistaklúbbsins í Árbæ leituðu til KSÍ fyrr á árinu og óskuðu eftir búningum til að gefa áfram til stúlknaliðs í knattspyrnufélaginu MogbwemoQueens í litlu námuþorpi í Síerra Leóne í Afríku. Samkvæmt upplýsingum frá Soroptimistaklúbbnum hafa flestar stúlkurnar í liðinu hlotið litla eða enga menntun og margar eiga átakanlega sögu um ofbeldi.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.

Síerra Leóne er land á vesturströnd Afríku með sjö milljónir íbúa. Síerra Leóne liggur að Atlantshafinu en er með landamæri að Gíneu í norðri og að Líberíu í suðri.

„Það að stofna knattspyrnulið hefur hvatt stúlkurnar til að taka upp námsþráðinn og halda áfram í skólanum. Knattspyrnan veitir þeim útrás, eflir félagsþroska þeirra og þær fá tækifæri til að ferðast til annarra þorpa í landinu, sem þær gætu ekki annars,“ segir í fréttinni. 

Sá sem stofnaði knattspyrnuliðið heitir Emmanuel, fæddur og uppalinn í Bretlandi en hefur tekið ástfóstri við SierraLeone. Emmanuel heldur utan um rekstur liðsins, fjáraflanir og önnur verkefni, m.a. að leita leiða til að útvega viðeigandi búnað.

Stelpurnar í liðinu hafa einnig mikla þörf fyrir fótboltaskó og -sokka. Stúlkurnar vilja heldur notaða skó, í stærðum 38-41 í stað þess að fá peningagjöf fyrir þeim, því úrvalið í landinu er lítið sem ekkert. Áhugasömum um að leggja verkefninu lið er bent á Soroptimistaklúbb Árbæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×