Erlent

Ætla ekki að kyrrsetja Sukhoi-þoturnar eftir slysið í Moskvu

Kjartan Kjartansson skrifar
Brak Sukhoi-þotu Aeoroflot á Sjeremetjevóflugvelli.
Brak Sukhoi-þotu Aeoroflot á Sjeremetjevóflugvelli. Vísir/EPA
Rússnesk samgönguyfirvöld ætla sér ekki að skipa fyrir um kyrrsetningu Sukhoi Superjet 100-farþegaþotanna eftir að 41 fórst þegar ein þeirra brotlenti á flugvelli í Moskvu í gær. Sukhoi er fyrsta rússneska farþegaþotan frá falli Sovétríkjanna.Eldur braust út í Sukhoi-vélinni við brotlendinguna á Sjeremetjevóflugvellinum í gær. Vélin var á vegum rússneska flugfélagsins Aeoroflot og var á leið til Moskvu frá Múrmansk þegar flugmennirnir neyddust til þess að nauðlenda henni. Rannsakendur beina nú sjónum sínum að því hvort að tæknileg bilun, mannleg mistök eða veðuraðstæður hafi valdið slysinu.Sjötíu og þrír farþegar voru um borð í vélinni auk fimm manna áhafnar. Þrjátíu og þrír farþegar og fjórir úr áhöfninni lifðu af en sex eru sagðir alvarlega slasaðir. Bandarísk yfirvöld hafa staðfest að einn þeirra sem fórst hafi verið bandarískur ríkisborgari.Jevgení Ditrikh, samgönguráðherra Rússlands, sagði fréttamönnum að engin ástæða væri til að kyrrsetja vélarnar í ljósi slyssins. Engu að síður tilkynnti Yamal Airlines, sem rekur flestar Superjet-þotur á eftir Aeroflot, að félagið ætlaði að hætta við kaup á tíu vélum í gær. Ástæðan væri þó hár rekstrarkostnaður, ekki öryggisáhyggjur.Sukhoi Superjet-þoturnar voru kyrrsetar í desember árið 2016 þegar galli fannst í stéli vélanna. Áhyggjur hafa komið fram um öryggi þeirra og áreiðanleika, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Ein þeirra hrapaði í Indónesíu árið 2012 með þeim afleiðingum að 45 manns fórust. Mannlegum mistökum var kennt um það slys.


Tengdar fréttir

Eldurinn kviknaði við lendingu

41 eru látinn eftir eldsvoða í rússnesku farþegaflugvélinni sem nauðlenda þurfti á Sheremetyevo flugvellinum í Moskvu skömmu eftir flugtak.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.