Innlent

Áreittu konu við Vífilstaðaskóla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fjölbreytt verkefni komu á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
Fjölbreytt verkefni komu á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/vilhelm
Tilkynnt var um tvo menn að áreita konu við Vífilstaðaskóla í Garðabæ um klukkan hálfeitt í nótt. Þegar lögregla kom á vettvang fundu þeir hins vegar hvorki gerendur né þolanda, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um þjófnað úr verslun á höfuðborgarsvæðinu. Hinn grunaði var handtekinn og laus að lokinni skýrslutöku. Á tíunda tímanum var tilkynnt um slagsmál í austurborginni. Engum varð meint af og var málið afgreitt á vettvangi. Þá var pening stolið úr yfirhöfn í skóla í Garðabæ á tíunda tímanum en ekki er vitað hver var að verki.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í miðborginni. Maður var handtekinn og gistir hann fangageymslu þar til hægt verður að taka af honum skýrslu.

Þá kom maður á lögreglustöðina á Hverfisgötu rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi og tilkynnti um þjófnað á myndavél og tveimur linsum af veitingastað í miðbænum. Ekki er vitað hver þjófurinn er.

Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi á Bústaðavegi við Háaleitisbraut skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Honum var komið til aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×