Erlent

Katrín á BBC: Gerðum málamiðlun um NATO

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir í Hardtalk.
Katrín Jakobsdóttir í Hardtalk. BBC
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Vinstri græna hafa valið málamiðlun í afstöðu sinni gagnvart Atlantshafsbandalaginu NATO til að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu og ná þannig fram mikilvægum málum.

Þetta sagði Katrín í viðtali við Shaun Levy í þættinum Hardtalk á breska ríkissjónvarpinu BBC.

„Mín persónulega skoðun og flokksins er sú að við ættum ekki að vera hluti af NATO. Hins vegar höfum við þjóðaröryggisstefnu sem allir flokkar þingsins samþykktu, fyrir utan okkur, því að aðild að NATO er hornsteinn þeirrar stefnu,“ sagði Katrín.

Hún sagðist ekki telja það næga ástæðu til að vera ekki hluti af ríkisstjórn þar sem hægt er að ná fram mikilvægum málum.

Því hafi verið gerð málamiðlun í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um að fylgja þjóðaröryggisstefnunni.

Shaun Levy sagði Vinstri græna hafa verið harðorða í garð NATO og að þeir telji það hernaðarbandalag sem sé grunnur að heimsyfirráðum og dauða milljóna.

Katrín svaraði að hún hefði nýtt tækifærið á NATO-þingi síðastliðið sumar til að endurspegla viðhorf sitt.

Spurð hvort að ekki ætti að fara með aðild Íslands að NATO í þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og Andrés Ingi Jónsson þingmaður VG hefur lagt til, sagði Katrín að það hafi ekki verið gert þegar Ísland gekk til liðs við NATO árið 1949 en hefði mögulega átt að vera þá.

Hún sagði að eftir að VG komst í ríkisstjórn hefði orðið breyting til batnaðar þegar kemur að félagsmálakerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntamálum og nú í fyrsta sinn vinni íslensk yfirvöld eftir loftslagsáætlun sem hefur hlotið talsvert fjármagn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×