Fótbolti

Lyon og Barcelona skrefi nær úrslitaleiknum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lyon er ríkjandi Evrópumeistari
Lyon er ríkjandi Evrópumeistari vísir/getty
Evrópumeistarar Lyon unnu eins marks sigur á Chelsea í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvennaknattspyrnu í dag.

Magdalena Ericsson skoraði sjálfsmark á 27. mínútu og kom heimakonum þar með yfir. Amandine Henry bætti öðru markinu við rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og því fóru þær frönsku með vænlega stöðu í hálfleik.

Í uppbótartíma fyrri hálfleik fékk Chelsea hins vegar gullið tækifæri til þess að minnka muninn þegar gestirnir fengu vítaspyrnu. Francesca Kirby náði hins vegar ekki að skora úr spyrnunni.

Chelsea bætti upp fyrir mistök Kirby á 72. mínútu þegar Erin Cuthbert minnkaði muninn. Nær komst Chelsea ekki og leikurinn endaði 2-1. Chelsea er þó enn inni í einvíginu og með mikilvægt útivallarmark fyrir seinni leikinn.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni vann Barcelona sterkan útisigur á Bayern München.

Eina mark leiksins skoraði Kheira Hamraoui og Barcelona er með pálmann í höndunum fyrir seinni leikinn.

Seinni leikir undanúrslitana fara fram eftir viku. Þar keppast liðin um að komast í úrslitaleikinn sem fer fram 18. maí í Búdapest. Úrslitaleikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×