Erlent

Heimilislaus maður og rotta sameinuð í Sydney

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Chris (t.v.) og Lucy (t.h.).
Chris (t.v.) og Lucy (t.h.). Facebook/NSWPOLICEFORCE
Chris, heimilislaus maður frá Sydney í Ástralíu, átti endurfundi með gælurottunni sinni, Lucy, nú fyrir helgi.

Hinn 59 ára gamli Chris var góðkunnur mörgum íbúum miðborgar Sydney, hvar hann sat löngum stundum á götuhorni meðan Lucy hvíldi í litlum kassa fyrir framan hann. Nýlega hvarf Lucy þó og Chris brá á það ráð að hengja upp auglýsingu á kassann þar sem hann lýsti eftir Lucy.

Viðbrögð samfélagsins létu ekki á sér standa og af stað fór samfélagsmiðlaherferð þar sem fólk birti sínar eigin myndir af tvíeykinu í tilraun til þess að finna Lucy og koma henni aftur til síns heima.

Þetta varð til þess að lögreglan í Nýja-Suður Wales tók málið til sín og lýsti eftir Lucy. Hún fannst loks eftir að kona sem hafði verið á gangi varð hennar vör og tók hana heim til sín til þess að hlúa að henni, þar sem konan hafði talið að Lucy hefði verið yfirgefin.

Þegar lögreglan bað Chris um að staðfesta að raunverulega væri um Lucy að ræða sagði hann ekki nokkurn vafa leika á því.

„Já, þetta er hún! Hún er blind á öðru auga. Hún man eftir mér!“ ku Chris hafa sagt við endurfundina.

Þá baðst Chris afsökunar á að hafa „látið“ lögregluna hafa svona mikið fyrir málinu.

„Mér líður frábærlega. Kærar þakkir allir,“ sagði Chris þegar Lucy var komin aftur á axlir eiganda síns.

„Hún veit að hún hefur saknað mín líka,“ sagði hann að lokum, feginn því að hafa endurheimt ástkært gæludýr sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×