Fótbolti

Robbie Fowler tekinn við áströlsku liði

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Robbie Fowler er nýr stjóri Brisbane Roar
Robbie Fowler er nýr stjóri Brisbane Roar vísir/getty
Fyrrum Liverpoolmaðurinn Robbie Fowler tók í nótt við ástralska liðinu Brisbane Roar. Hann segir það ekki skipta máli að hann sé reynslulítill þjálfari.

Hinn 44 ára Fowler skrifaði undir tveggja ára samning við ástralska félagið en eina reynsla hans sem knattspyrnustjóri er hjá tælenska liðinu Muangthong United, hann var þar tímabilið 2011-12.

„Það að ég sé ekki eins reynslumikill og sumir aðrir þýðir ekki að ég muni standa mig illa,“ sagði Fowler.

„Menn eins og Jurgen Klopp og Pep Guardiola eru ekki endilega frábærir stjórar fyrir Brisbane. Ég átti góðan feril sem leikmaður og núna byrjar þjálfaraferillinn fyrir alvöru.“

Fowler er sjötti markahæsti maður ensku úrvalsdeildarinnar og gerði garðinn frægann með Liverpool á síðasta áratug síðustu aldar. Eftir að hann fór frá Liverpool 2001 spilaði hann meðal annars fyrir Leeds, Manchester City, Cardiff og Blackburn ásamt því að hann fór aftur til Liverpool tímabilið 2006-07.

Hann spilaði í ástralíu undir lok ferilsins og þekkir því ágætlega til ástralska boltans.

Síðustu misseri hefur hann verið þjálfari í akademíu Liverpool.

Fowler tekur við starfinu af Darren Davies sem hefur verið bráðabirgðastjóri Brisbane síðan í desember. Aðeins einn leikur er eftir af deildinni og stefnir allt í að Brisbane endi í næst neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×