Innlent

Tugir vindmylla gætu litið dagsins ljós

Birgir Olgeirsson skrifar
Vindorkuverin eiga að rísa í Garpsdal og á Hróðnýjarstöðum.
Vindorkuverin eiga að rísa í Garpsdal og á Hróðnýjarstöðum. map.is
Tugir vindmylla gætu litið dagsins ljós í Garpsdal og Hróðnýjarstöðum gangi áætlanir orkufyrirtækja eftir. Skipulagsstofnun hefur birt tillögur fyrirtækjanna á vef sínum þar sem hægt er að gera athugasemdir við þær.

Í Garpsdal ætlar EM-Orka að reisa 35 vindmyllur en á Hróðnýjarstöðum áætlar Storm orka ehf. að reisa 24 vindmyllur.

Geta vindmyllurnar náð 180 metra hæð, sé miðað við spaða í efstu stöðu en í Garpsdal í Reykhólahreppi er áætlað að framleiða 130 megavött  en 80 til 130 megavött á Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð. Rúmlega 30 kílómetrar eru á milli Garpsdals og Hróðnýjarstaða.

Bræðurnir Magnús og Sigurður Jóhannessynir keyptu jörðina að Hróðnýjarstöðum í ágúst árið 2017 en rúmum þremur vikum síðar var vilja- og samstarfsyfirlýsing undirrituð af sveitarstjórn og fyrirtækis bræðranna, Storms orku ehf, um þessar vindmyllur ef tilskilin leyfi fást.

Magnús er með meistaragráðu í rekstrarhagfræði frá Álaborgarháskóla og á að baki 25 ára reynslu í orkugeiranum, meðal annars sem framkvæmdastjóri America Renewables og Iceland America Energy og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Enex. Sigurður er umhverfis- og auðlindafræðingur frá Háskóla Íslands og stundar doktorsnám í umhverfisfræði við sama skóla en hann hefur áður starfað sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

EM Orka er íslenskt fyrirtæki í eigu EMP Holdings sem er sameiginlega í eigu EMP IN og Vestas en það síðastnefnda er einn stærsti vindmylluframleiðandi í heims með 94 gígavatta framleiðslugetu í 79 löndum. EMP er með höfuðstöðvar í Dublin á Írlandi.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hafði skipað starfshóp um regluverk vegna vindorkuvera. Hópurinn skilaði skýrslu síðastliðið haust þar sem niðurstaðan var sú að ekki væri þörf á sérlöggjöf um vindorkuframleiðslu en hins vegar væri tilefni til tiltekinna breytinga á lögum og reglum. 


Tengdar fréttir

Skoða vindorkugarð norðan við Húsavík

Bæjarráð Norðurþings mun á næstunni taka til umfjöllunar hugmyndir EAB New Energy Europe um vindorkugarð í nágrenni Húsavíkur. Fyrirtækið hefur fundað með forsvarsmönnum Norðurþings í tvígang og kynnt vilja sinn til að rannsaka svæði norðan Húsavíkur sem mögulegan framtíðarstað.

Skoða vindorku í landi Hóla

Drög að samningi um könnunarmöstur vegna rannsókna á vindorku í landi Hóls í Hjaltastaðaþinghá voru rædd á síðasta fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.

Vilja vindorkugarð á sauðfjárbú í Dalabyggð

Eigendur Storm Orku vilja reisa allt að 40 vindmyllur á Hróðnýjarstöðum skammt frá Búðardal. Þeir undirrituðu í september viljayfirlýsingu ásamt Dalabyggð. Keyptu jörðina í ágúst og ætla að halda íbúafund í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×