Innlent

Vilja reisa 35 vindmyllur á fjöllum norðan Gilsfjarðar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hafliði Ólafsson, bóndi frá Garpsdal.
Hafliði Ólafsson, bóndi frá Garpsdal. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Vindorkuver með 35 vindmyllum gæti risið á fjöllum ofan Garpsdals í Gilsfirði, miðað við áform sem orkufyrirtæki í eigu Dana og Íra hefur kynnt heimamönnum. Fjárfestingin er talin nema yfir sextán milljörðum króna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. Gilsfjörður er sá fjörður sem næstum klýfur Vestfjarðakjálkann frá öðrum landshlutum. Garpsdalur opnast fyrir miðjum firðinum að norðanverðu og þar vilja menn núna virkja vindinn. En fyrst þurfti að spyrja Garpsdalshjónin Hafliða Ólafsson og Ingibjörgu Kristjánsdóttur. „Það komu hingað útlendingar í vetur og höfðu áhuga fyrir þessu,“ segir Hafliði bóndi frá Garpsdal.

Séð norður yfir Gilsfjörð inn í Garpsdal.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Þeir voru frá danska vindmylluframleiðandum Vestas og írska orkufyrirtækinu EM Power, sem nú hafa stofnað félagið EM Orku um verkefnið. „Mér líst ágætlega á það, ef það verður einhverntímann að veruleika,“ segir Hafliði og segir þetta mjög stórar hugmyndir; að reisa 115 megavatta vindmylluorkuver á fjöllunum inn af Garpsdal fyrir 16,2 milljarða króna. Það yrði stærsta fjárfesting í sögu Reykhólahrepps. „Þetta er ótrúlegt. 35 vindmyllur, - ég held að hvert stykki sé 150 metrar á hæð. Mér skilst að orkan frá þessu sé á við tvær Hvalárvirkjanir, þannig að ég held að það hljóti allir að fagna þessu,“ segir Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps.

Ingimar Ingimarsson er oddviti Reykhólahrepps.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Ríkarður Örn Ragnarsson, verkefnastjóri EM Orku, segir vindmælingar hafnar sem og umhverfismat. Staðsetningin þýði að mannvirkin verði úr augsýn flestra íbúa. Ingimar oddviti kveðst þó sannfærður um að einhverjum muni þykja þetta ljótt. „En þetta er 25 ára líftími sem vindmyllur hafa. Og eftir 25 ár þarftu að taka þetta niður og þá sést ekkert í náttúrunni eftir þetta. Þannig að: Prufa þetta í 25 ár,“ segir oddvitinn. Ef öll leyfi fást er stefnt að því að framkvæmdir hefjist eftir þrjú ár og raforkuframleiðsla árið 2022. „Að minnsta kosti hefur verið talað um 4-6 störf. Þá erum við að tala um tæknimenntuð störf sem við myndum nú fagna hér í sveitinni,“ segir Ingimar.

 

Vindmyllurnar er áformaðar á fjöllunum inn af Garpsdal fyrir miðri mynd.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Okkur vantar eitthvað fleira en búskapinn hérna. Það er allt til bóta,“ segir Hafliði í Garpsdal. Svo kæmu af þessu umtalsverð fasteignagjöld, segir oddviti Reykhólahrepps. „Ég myndi segja að þetta hefði mjög góð áhrif fyrir þetta sveitarfélag. Og fyrir utan náttúrulega rafmagnsöryggið,“ segir Ingimar. Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Vilja vindorkugarð á sauðfjárbú í Dalabyggð

Eigendur Storm Orku vilja reisa allt að 40 vindmyllur á Hróðnýjarstöðum skammt frá Búðardal. Þeir undirrituðu í september viljayfirlýsingu ásamt Dalabyggð. Keyptu jörðina í ágúst og ætla að halda íbúafund í næsta mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.