Innlent

Hægt væri að stækka selalaugina innan árs með fjármagni frá borginni

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Selalaugin í Fjölskyldu-og húsdýragarðinum er alltof lítil og barn síns tíma að sögn deildarstjóra garðsins. Ef fjármagn fáist frá borginni væri hægt að stækka hana og dýpka innan árs.

Selirnir Særún, Kobba og Snorri hafa verið í Selalauginni  í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í næstum þrjátíu ár en þau fæddust á árunum 1988 og 89. Í fréttum Bylgjunnar kom fram að til skoðunar væri að stækka laugina því aðstaða þeirra væri óásættanleg. 

Þorkell Heiðarsson deildarstjóri garðsins segir að menn hafi talið stærðina fullnægjandi þegar garðurinn opnaði en tímarnir hafi breyst.

„Þessi laug er barn síns tíma og má alveg við því að vera stækkuð og dýpkuð og það hafa verið uppi hugmyndir um að stækka hana hérna niður eftir og vera þar með dýpri hluta og þá gæti fólk jafnvel séð selina kafa,“ segir Þorkell.]

Hann segir að ef fjármagn fáist til verkefnisins hjá borginni sé hægt að stækka laugina hratt.

„Það væri hægt að klára svona verkefni innan árs ef við fáum fjármagn til þess,“ segir hann.

Selirnir í Húsdýragarðinum kæpa jafnan á vorin og er kópunum slátrað á haustin. Þorkell segir að Landselir séu í útrýmingarhættu við strendur landsins og því mikilvægt að standa vörð um tegundina, hins vegar sé ekki búið að ákveða hvað verði um kópa sem fæðast í garðinum.

„Það er erfitt að svara því núna það kemur eiginlega bara í ljós í haust,“ segir Þorkell. 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×