Erlent

Vaknaði eftir 27 ár í dái

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. Vísir/Getty

Það þykir kraftaverki líkast að 59 ára gömul kona frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafi vaknað á nýjan leik eftir 27 ár í dái.

Munira Abdulla var 32 ára er hún lenti í bílslysi árið 1991 er hún var á leið til að sækja son sinn í skóla. Hlaut hún alvarlegan heilaskaða og var hún í dái frá því að slysið gerðist þangað til á síðasta ári, er hún náði meðvitund á ný.

Omar Webair, sonur hennar, ræddi ástand móður hans við fjölmiðla í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á dögunum en á vef BBC kemur fram að hann hafi einnig verið í bílnum er umrætt slys átti sér stað, aðeins fjögurra ára gamall. Hann slapp ómeiddur eftir að móðir hans tók utan um hann rétt fyrir bílslysið.

Frá því að slysið átti sér stað hefur Abdulla farið á milli sjúkrahúsa. Var hún án meðvitundar frá árinu 1991 fyrir utan það að hún gat skynjað sársauka. Sonur hennar telur að rifrildi í sjúkrarými hennar í Þýskalandi hafi átt þátt í að hún vaknaði á ný.

„Það var einhver misskilningur og hún hefur skynjað að ég var í hættu,“ sagði Omar. „Hún gaf frá sér undarleg hljóð.“

Þremur dögum síðar vaknaði Omar við það að einhver var að kalla nafn hans.

„Það var hún, hún var að kalla nafn mitt. Ég var svo glaður. Árum saman hefur mig dreymt um þetta augnablik og nafnið mitt var það fyrsta sem hún sagði,“ sagði Omar.

Í frétt BBC segir að Abdulla geti nú átt í einhverjum samræðum en henni hefur verið flogið aftur til Abu Dhabi þar sem hún mun undirgangast frekari meðferðir. Alls óvíst er hvort hún nái fullum bata en í frétt BBC segir að afar fátítt sé að sjúklingar vakni á ný eftir svo langan tíma í dái.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.