Erlent

Miklir skógareldar í Svíþjóð og Noregi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Notast er við þyrlur í slökkvistarfinu.
Notast er við þyrlur í slökkvistarfinu. Vísir/AP

Slökkviliðsmenn í Svíþjóð og Noregi berjast nú við skógarelda á nokkrum stöðum í löndunum. Erfiðlega gengur að ráða niðurlögum eldanna sökum hvassviðris og þurrka. Íslendingur sem býr í grennd við skógareldanna í Svíþjóð óttast að sumarið verði líkt síðasta sumri sem var mjög heitt og þurrt.

Í Svíþjóð berjast slökkviliðsmenn við skógarelda á nokkrum stöðum í suðurhluta landsins, einkum í grennd við bæinn Hästveda á Skáni. Þar hafa hafa fjölmargir íbúar sem búa fyrir utan bæinn þurft að rýma heimili sín vegna eldanna.

Í sænskum fjölmiðlum kemur fram að notast sé við þyrlur við slökkvistarfið en töluvert hvassviðri í dag hefur gert slökkvistarfið erfitt. Heimir Tómasson er búsettur í Hästveda og segir hann skógareldana vera í um 30 kílómetra frá heimili hans.

Töluverður vatnsskortur er á svæðinu og nær öllu vatni beint að slökkvistarfinu að sögn Heimis sem fylgist grannt með en þrjár íslenskar fjölskyldur eru búsettar í bænum. Eru þær allar öruggar að sögn Heimis en fólk hefur verið beðið um að hafa varann á sér.

Reykjarlykt finnst í bænum og íbúar hafa orðið var við mistur. Heimir segir ónotatilfinning sé ráðandi meðal íbúa bæjarins vegna skógareldana, ekki síst vegna þess að síðasta sumar hafi verið bæði heitt og þurrt og nú stefni í það sama aftur.

Sömu aðstæður eru fyrir hendi í Noregi þar sem þrjár þyrlur og slökkvilið berjast nú við talsverðan skógareld í Suður-Rogalandi. 30 heimili hafa verið rýmd í Årstad, Haneberg og Åmot í Sokndal en mikill reykur fylgir skógareldunum.

Alls taka 150 slökkviliðsmenn þátt í baráttunni en engar fregnir hafa borist af manntjóni, en búist er við að kofar og önnur smáhýsi kunni að hafa brunnið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.