Innlent

Bensínbrúsi fannst á vettvangi brunans við Sléttuveg

Lovísa Arnardóttir skrifar
Eldurinn kviknaði í fjölbýlishúsi Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg.
Eldurinn kviknaði í fjölbýlishúsi Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg. Skjáskot/Stöð 2

Brynja hússjóður mun í framhaldi af bruna sem átti sér stað í bílakjallara við Sléttuveg á páskadag taka harðar á því að rusl sé skilið eftir í bílakjallara. Bruninn varð snemma páskadagsmorguns í húsi sem er á vegum sjóðsins. Talið er að hann sé af mannavöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Birni Arnari Magnússyni, framkvæmdastjóra Brynju, fannst á vettvangi brunans bensínbrúsi og virðist sem kveikt hafi verið í dekkjum sem átti eftir að ganga frá í bílakjallaranum.

Björn segir í samtali við Fréttablaðið að íbúar hafi verið beðnir að fjarlægja dekkin áður en bruninn varð. „Við höfum beðið íbúa að vera ekki með dekk þarna og í framhaldi af þessu verður tekið enn harðar á því. Það verður ekkert leyfilegt þarna eftir þetta,“ segir Björn.

Talsverður fjöldi bíla varð fyrir skemmdum í brunanum, auk þess sem húsnæðið sjálft skemmdist eitthvað. Björn segir að, í samráði við tryggingafélag, hafi iðnaðarmenn verið fengnir á vettvang í dag og að bílarnir sem voru í kjallaranum hafi verið fluttir í alþrif.

Hann segir að það líti jafnvel út fyrir að þeir séu ekki eins skemmdir og upphaflega var talið en það komi í ljós að þrifum loknum hversu mikið tjónið er.

„Mér sýnist að þetta hafi farið betur en maður þorði að vona. En það er mikið tjón á húsnæðinu. Maður veit ekki með bílana en manni sýnist að þeir hafi sloppið,“ segir Björn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.