Innlent

Eldurinn í bílageymslunni kviknaði af mannavöldum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Sérútbúnir bílar og raftæki skemmdust.
Sérútbúnir bílar og raftæki skemmdust. Stöð 2
Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið við frumrannsókn á upptökum eldsins sem kom upp í bílageymslu að Sléttuvegi 7 á páskadagsmorgun.

Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til þess að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum en eldur logaði í dekkjum þegar að var komið og hlaust af mikið tjón. Ekki mátti miklu muna að reykur bærist í stigagang hússins en slökkviliði tókst að forða því.

Tíu bílar voru inni í bílageymslunni, margir þeirra sérútbúnir fyrir hreyfihamlaða. Húsnæðið er í eigu Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands.

Sjá einnig: Gagnrýna eigendur hússins vegna skorts á upplýsingum eftir brunann

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir niðurstöðurnar í samtali við fréttastofu og óskar auk þess eftir því að þeir sem hafi orðið varir við mannaferðir í eða við Sléttuveg 7 á milli klukkan níu og tíu, setji sig í samband við lögregluna í gegnum síma 444-1000, eða á Facebook-síðu lögreglunnar eða með tölvupósti á netfangið abendingar@logreglan.is.

Engar myndavélaeftirlitsvélar eru á svæðinu og því ekki hægt að kanna með mannaferðir í eða við staðinn. Jóhann Karl segir að bensínbrúsi hafi fundist á vettvangi. Hann hafi verið óbrunninn.

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, hússjóðs, sagði í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að fundað yrði með tryggingafélagi hússjóðsins í dag og að þá yrðu næstu skref ákveðin.

Margir íbúanna sjá fram á það að eiga í erfiðleikum með að komast á milli staða þar sem bílar þeirra eru skemmdir eftir brunann.

Vegna dekkjanna sem logaði í myndaðist mikil svartur reykur og lagðist sót yfir allt, sem meðal annars komst inn í bíla sem voru inni í geymslunni.


Tengdar fréttir

Gagnrýna eigendur hússins vegna skorts á upplýsingum eftir brunann

Bruninn í bílageymslu fjölbýlishússins að Sléttuvegi 7 í gær hefur sett marga íbúa hússins í nokkuð erfiða stöðu. Húsið er á vegum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands, og margir íbúanna hreyfihamlaðir og reiða sig á sérútbúin ökutæki til þess að komast ferða sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×