Erlent

Mannréttindasamtök gagnrýna aftökur í Sádi Arabíu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Salman bin Adbulaziz As Saud er konungur Sádi Arabíu.
Salman bin Adbulaziz As Saud er konungur Sádi Arabíu. getty/dan kitwood

37 voru teknir af lífi í Sádi Arabíu í gær á einu bretti, en fólkið var allt sakað um hryðjuverkastarfsemi.
 
Á meðal hinna líflátnu var sextán ára gamall drengur, að því er Amnesty International fullyrðir, en samtökin gagnrýna aftökurnar harðlega.

Einn þeirra sem tekinn var af lífi var afhöfðaður og krossfestur að auki, sem víti til varnaðar fyrir aðra, segja stjórnvöld í arabaríkinu. Aftökurnar fóru fram á nokkrum stöðum í landinu á sama tíma, í höfuðborginni Riadh, í Mekka og Medína.

Amnesty segir að allir hafi mennirnir átt það sameiginlegt að vera Shíatrúar, en shía múslimar eru í minnihluta í Sádi Arabíu.

Að sögn Amnesty hafa hundrað og fjórir verið teknir af lífi í landinu það sem af er þessu ári en í fyrra voru 149 aftökur framkvæmdar í Sádi Arabíu.

Aðeins Kínverjar og Íranir taka fleiri af lífi á hverju ári en Sádar, en í Sádi Arabíu búa um þrjátíu milljónir manna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.