Erlent

Vilja aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota. Fréttablaðið/Ernir

Skotar munu undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Bretlandi fyrir maí 2021 hvort sem stjórnvöld í Lundúnum gefa leyfi fyrir slíku eður ei. Þetta sagði Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, á skoska þinginu í gær.

„Valið á milli útgöngu úr Evrópusambandinu og sjálfstæðs Skotlands í Evrópusamstarfi ætti að vera lagt í dóm þessa þings á yfirstandandi kjörtímabili,“ sagði ráðherrann í ræðu sinni. Hún bætti því við að áætlað væri að frumvarp þess efnis yrði skrifað fyrir árslok og að á þessu stigi væri ekki þörf á samþykki stjórnvalda í Lundúnum. Það yrði hins vegar nauðsynlegt síðar.

Skotar fengu að halda atkvæðagreiðslu um sjálfstæði árið 2014 eftir rúmlega 300 ára sambúð með öðrum þjóðum Bretlands. Svo fór að 44,7 prósent Skota sögðu já við sjálfstæði en 55,3 prósent nei. En þótt enginn meirihluti hafi verið fyrir sjálfstæði þá, og ekki heldur nú samkvæmt könnunum, vilja Skotar ólmir vera í Evrópusambandinu.

51,89 prósent Breta samþykktu sumarið 2016 að ganga út úr ESB. 48,11 prósent lögðust gegn útgöngu. Myndin var hins vegar öðruvísi á Skotlandi. Alls greiddu 38 prósent Skota atkvæði með útgöngu en 62 prósent gegn.

Sturgeon sagði í ræðu sinni að valið stæði nú á milli þess að þokast út á jaðar alþjóðastjórnmála með Bretum eða standa vörð um stöðu Skotlands sem Evrópuþjóðar með því að lýsa yfir sjálfstæði. – þeaAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.