Enski boltinn

„Solskjær þarf að senda De Gea snemma í sumarfrí“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær verður að setja David de Gea á bekkinn í ljósi síendurtekna mistaka markvarðarins í síðustu leikjum. Þetta segir fyrrum framherjinn Ian Wright.

Í þremur af síðustu fjórum leikjum hefur de Gea gert mistök sem leiddu til marks andstæðingsins og Spánverjinn hefur ekki verið sjálfum sér líkur í allan vetur.

„Það er eitthvað ekki í lagi,“ sagði sparksérfræðingurinn Wright við BBC.

„Ef Solskjær vill setja mark sitt á liðið og láta fólk vita af því að hann sé við völdin þá þarf hann að setja hann á bekkinn.“

„Ef hann útskýrir allt, segir honum augliti til auglits afhverju hann er að bekkja hann og gefa honum smá pásu, það er mannauðsstjórnun. Það er það sem Solskjær þarf að gera.“

Á síðustu 13 dögum, með mistökum gegn Chelsea, Manchester City og Barcelona, er de Gea búinn að gera jafn mörg dýr mistök og hann gerði í síðustu 123 leikjum fyrir United samkvæmt tölfræði BBC.

United á bara tvo leiki eftir af tímabilinu, gegn föllnu liði Huddersfield og Cardiff, sem gæti orðið fallið fyrir lokadaginn.

„Hann þarf að fara snemma í sumarfrí og koma samningamálunum sínum á hreint. Stundum þarf að taka menn úr skotfæri. Hann er einn besti markmaður heims en hann þarf smá frí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×