Innlent

Safna fyrir fjölskyldu Margeirs

Birgir Olgeirsson skrifar
Listamaðurinn Margeir Dire lést 30. mars síðastliðinn.
Listamaðurinn Margeir Dire lést 30. mars síðastliðinn. FBL/Anton Brink
Búið er að stofna minningarsíðu til heiðurs myndlistarmannsins Margeirs Dire Sigurðarsonar sem lést 30. mars síðastliðinn. 

Er ætlunin að minnast Margeirs á síðunni sem þótti frábær manneskja og mikill listamaður. Verða birtar myndir af honum og verkum hans þar. Margeir var búsettur í Berlín þangað sem hann flutti haustið 2017.

„Margeir var einstakur og bætti mörgum litum í litróf okkar sem fengum að kynnast honum. Hann var gæddur miklum persónutöfrum og átti auðvelt með að hrífa þá sem í kringum hann voru með breiðu brosi, sköpunargleði, stríðni og góðri nærveru,“ segir frænka hans Gróa Ólöf Þorgeirsdóttir.

Við tekur erfiður tími hjá fjölskyldu Margeirs, bæði við að takast á við sorgina og missinn, en á sama tíma fylgir því mikill kostnaður að flytja hann heim og halda útför.

Gróa stofnaði því styrktarreikning hjá Íslandsbanka, með samþykki fjölskyldunnar, til að létta undir með þeim.

Fyrir þá sem vilja styrkja þau er reikningsnúmerið: 

511-14-557, kt.260681-2069.

Margeir Dire nam í Myndlistaskólanum á Akureyri, Lahti Institude of Fine Arts í Finnlandi og Instituto Europeo di Design í Barcelona.

Hann er þekktur fyrir myndsköpun í mismunandi miðla svo sem vegglistaverk, strigamálverk, teikningar, video, tónlist, hönnun og listræna stjórnun. Margeir hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í allskyns samsýningum og samstarfsverkefnum.

Margeir var á 34. aldursári þegar hann lést.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×