Innlent

Andlát: Björgvin Guðmundsson

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgvin starfaði lengi vel við fjölmiðla og kom víða við á ferli sínu. Undanfarin ár var hann áberandi í baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara.
Björgvin starfaði lengi vel við fjölmiðla og kom víða við á ferli sínu. Undanfarin ár var hann áberandi í baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara. Vísir/Vilhelm
Björgvin Guðmundsson er látinn, 86 ára að aldri. Hann fæddist 13. september árið 1932 í Reykjavík en lést í gær. Foreldrar hans voru Guðmundur Marel Kjartansson verkamaður og Katrín Jónsdóttir húsmóðir.

Kona Björgvins var Dagrún Þorvaldsdóttir sem lést árið 2015. Saman áttu þau sex börn.

Björgvin Guðmundsson
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953 og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1958.

Björgvin starfaði lengi sem blaðamaður og fréttaritstjóri við Alþýðublaðið og Vísi, eða um ellefu ára skeið. Hann var umsjónarmaður Efst á baugi hjá Ríkisútvarpinu í 10 ár, forstjóri BÚR í tvö ár, framkvæmdastjóri Íslensks nýfisks í 9 ár, starfsmaður stjórnarráðsins í 28 ár, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu.

Hann var borgarfulltrúi og borgarráðsmaður fyrir Alþýðuflokkinn í 12 ár, ásamt því að vera formaður borgarráðs í 1 ár. Þá var hann lengi vel formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og greinar hans um bætt kjör eldri borgara áberandi á síðum fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×