Enski boltinn

Kokhraustur Pogba segir United geta slegið út Barcelona

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba í leiknum í gær.
Pogba í leiknum í gær. vísir/getty
Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, segir að leikmenn liðsins hafi enn trú á verkefninu gegn Barcelona og að það sé nægileg gæði í liðinu til að slá út þá spænsku.

Barcelona vann 1-0 sigur í fyrri leik liðanna í gærkvöldi á Old Trafford en Luke Shaw varð fyrir því óláni að skora í eigið mark. United átti ekki skot á markið í leiknum.

„Við þurfum að skora úr færunum sem við fáum. Barcelona fékk ekki mikið af færum. Þeir fengu kannski eitt færi er De Gea varði vel en eftir það voru þeir ekki hættulegir,“ sagði Pogba.

„Við trúum því að við getum sigrað þá. Við erum Manchester United og þrátt fyrir að þeir séu Barcelona þá erum við Manchester United og spilum í Meistaradeildinni eins og þeir. Auðvitað getum við farið áfram.“

Romelu Lukaku, framherji liðsins, segir að liðið verði að spila með meira sjálfstrausti og hroka í síðari leiknum en þeir gerðu í gærkvöldi.

„Við spiluðum ekki með sama sjálfstraust og hroka með boltann og það var það sem stjórinn talaði um í hálfleik. Við prufuðum það í síðari hálfleik. Við megum ekki fá á okkur mark og þurfum að reyna að skora snemma,“ sagði framherjinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×