Erlent

Norðmaður dæmdur í fjórtán ára fangelsi í Rússlandi fyrir njósnir

Samúel Karl Ólason skrifar
Berg er fyrrverandi landamæravörður.
Berg er fyrrverandi landamæravörður. EPA/MAXIM SHIPENKOV
Norðmaðurinn Frode Berg hefur verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi í Rússlandi fyrir njósnir. Berg starfaði áður sem vörður við landamæri Noregs og Rússlands en hann hefur verið í haldi frá í desember 2017. Hann er sagður hafa reynt að greiða rússneskum manni fyrir upplýsingar um kafbátaflota Rússlands. Þegar hann var handtekinn var hann með þrjú þúsund evrur á sér.

Berg hefur þó ávallt neitað sök. Hann hefur játað að hafa verið að flytja sendingu fyrir norska herinn en segist ekki hafa haft hugmynd um að hann væri að stunda njósnir.



Strangasta refsingin fyrir njósnir í Rússlandi er 20 ára fangelsisvist en vægasta refsingin er tíu ára fangelsisvist. Saksóknarar höfðu farið fram á fjórtán ára dóm og varð dómari við því. NRK segir það hefðbundið í njósnamálum að dómarar fylgi óskum saksóknara.



Ilja Novikov, lögmaður Berg, sagði NRK að Berg vonaðist til þess að vera náðaður og væri fullviss um að norska ríkið væri að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að aðstoða hann. Talsmaður Utanríkisráðuneytisins sagði embættismenn vera að gera sitt besta og nýta margar leiðir til að vernda hagsmuni Berg. Hún vildi þó ekki staðfesta að viðræður á milli Norðmanna og Rússa hefðu átt sér stað.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hitti Vladimir Putin, forseta Rússlands, í síðustu viku. Þar sagði Putin við blaðamenn að það væri ekki við hæfi að ræða mögulega náðun fyrr en dómur væri fallinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×