Fótbolti

Stórt próf fyrir lærisveina Pep Guardiola í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sergio Aguero og Raheem Sterling fagna marki hjá Manchester City.
Sergio Aguero og Raheem Sterling fagna marki hjá Manchester City. Getty/Laurence Griffiths

Manchester City og Tottenham mætast í kvöld í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Tottenham leiðir 1-0 eftir fyrri leik liðanna og er einum leik frá því að komast í undanúrslitin í fyrsta sinn í sögu félagsins. Á sama tíma er Man­chester City einum leik frá því að komast í undanúrslitin í annað sinn í sögu félagsins.

Líkt og í ensku úrvalsdeildinni hefur Manchester City örlögin í eigin höndum þegar lokaspretturinn er að hefjast. Leikurinn fer fram á Etihad-vellinum í Manchester sem hefur verið vígi City-manna undanfarin ár. Síðan Crystal Palace vann óvætan sigur tveimur dögum fyrir jól hefur Manchester City leikið tólf leiki í öllum keppnum á heimavelli og eru tólf sigrar staðreynd.

Sergio Aguero reyndist Tottenham erfiður fyrstu ár Aguero á Englandi þegar hann skoraði tíu mörk í sjö en hann hefur ekki skorað í síðustu sjö leikjum gegn Tottenham.

Þetta er fyrri viðureign liðanna í þessari viku sem mætast á ný um helgina. Á einni viku mætir Manchester City því Tottenham tvisvar og á leik gegn Manchester United eftir viku.

„Ef við vinnum ekki þessa þrjá leiki þá erum við úr sögunni í tveimur keppnum. Þetta eru úrslitaleikir fyrir okkur en við erum bara að spila úrslitaleiki þessa dagana,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City í aðdraganda leiksins.

Tottenham leikur án Harry Kane eftir að Kane meiddist í fyrri leik liðanna en það ætti ekki að há Spurs. Tottenham vann fimm leiki af sjö þegar Kane var meiddur í byrjun árs og þekkir Mauricio Pochettino því vel að leggja upp leiki án síns helsta markaskorara.

Á sama tíma tekur Porto á móti Liverpool í Portúgal. Þegar þessi lið mættust á sama velli í fyrra vann Liverpool 5-0 sigur en Bítlaborgarmenn leiða 2-0 eftir fyrri leik liðanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.