Erlent

Bóluefni við ebólu veitir mikla vernd

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður bólusetur fyrir ebólu.
Heilbrigðisstarfsmaður bólusetur fyrir ebólu. Nordicphotos/GEtty
Bóluefni við ebólu sem notað hefur verið í tilraunaskyni til að bæla niður faraldur sem nú geisar í Kongó hefur borið afar jákvæðan árangur. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur birt bráðabirgðaniðurstöður athugunar á virkni efnisins og gefa þær til kynna að efnið verndi fyrir ebólu í 97,5 prósentum tilfella.

Bóluefnið, sem framleitt er af Merck & Co, er talið hafa skipt sköpum í baráttunni við faraldurinn nú, en hann er nú þegar orðinn einn sá versti í sögunni. Alls hafa 1.264 greinst með ebólu síðan í ágúst, þar af hafa 814 látist.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) telur öruggt að faraldurinn hefði orðið mun verri hefði bóluefnið ekki verið notað.

Tæplega hundrað þúsund manns hafa verið bólusettir fyrir ebólu. Aðallega eru þetta einstaklingar sem eru í mikilli hættu á að smitast af veirunni auk heilbrigðisstarfsmanna. Aðeins 71 af þeim sem hafa verið bólusettir hefur greinst með ebólusmit.

Þrátt fyrir að faraldurinn nú sé annar versti ebólufaraldur sögunnar, þá telja sérfræðingar (WHO)ekki tilefni til að lýsa yfir alþjóðlegu neyðarástandi. Vonast er til að hægt verði að halda honum í skefjum með áframhaldandi bólusetningu og fræðslu um hvernig ebóla smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×