Tottenham í undanúrslit eftir stórbrotinn leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Llorente fagnar markinu sem skaut Tottenham áfram.
Llorente fagnar markinu sem skaut Tottenham áfram. vísir/getty

Einn besti knattspyrnuleikur tímabilsins fór fram á Etihad-leikvanginum í kvöld er Manchester City vann 4-3 sigur á Tottenham í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Úrslitin gera það þó að verkum að Tottenham er komið áfram.

Tottenham var án Harry Kane sem meiddist í fyrri leik liðanna eftir samstuð við Fabian Delph. Byrjunin á leiknum gaf tóninn fyrir leikinn sem var algjörlega stórkostlegur í alla staði.

Fjórar mínútur voru komnar á klkkuna er Raheem Sterling kom City yfir eftir frábært skot en einungis þremur mínútum síðar hafði Son Heung-Min jafnað fyrir Tottenham. Skot beint á Ederson sem markvörðurinn átti að gera betur.

Sýningin var einfaldlega rétt að byrja. Tottenham var komið í 2-1 á tíundu mínútu en eftir hraða skyndisókn, tók Son boltann inn í völlinn og skrúfaði hann í fjærhornið. Mögnuð byrjuð Tottenham og nú þurfti City þrjú mörk til að komast áfram.

Það leið ekki að löngu þar til fyrsta markið af þessum þremur datt í hús því á elleftu mínútu var staðan orðinn 2-2. Skot Bernardo Silva fór í Danny Rose og skrúfaðist frá Hugo Lloris og í netið. Ótrúlegar ellefu mínútur.

Veislu fyrri hálfleiksins var ekki lokið því á 21. mínútu skoraði Sterling annað mark sitt og þriðja mark Manchester City. Aftur var það Kevin de Bruyne sem var arkitektinn en Sterling kom eins og gammur á fjærstönginni, framhjá steinsofandi Kieran Trippier og kom boltanum í netið.

3-2 fyrir City í hálfleik og þeir þurftu eitt mark í viðbót til þess að koma sér áfram í næstu umferð. Fjórða markið kom eftir klukkutíma en það gerði Sergio Aguero eftir þriðju stoðsendingu De Bruyne en hann þrumaði boltanum á nærstönigina.

Gestirnir frá Lundúnum voru ekki hættir. Þeir skoruðu markið sem skildi liðin að á 73. mínútu. Hornspyrna Kieran Trippier fór einhvernveginn af varamanninum Fernando Llorente og í netið. City vildi hendi á Spánverjann en eftir VARsjána var markið dæmt gilt.

City reyndi og reyndi til þess að ná inn fimmta marki sínu í kvöld og þeir virtust vera ná inn fimmta markinu á næst síðustu mínútunni er Sergio Aguero skoraði. Í VARsjánni kom það hins vegar í ljós að um rangstöðu var að ræða og markið því dæmt af. Ótrúleg dramatík.

Tottenham er því komið í undanúrslitin en þar bíður Ajax. Í hinni viðureigninni mætast Liverpool og Barcelona.
Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.