Erlent

Segja ekki standa til að vísa Assange úr sendiráðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar fyrir utan sendiráð Ekvador í London í morgun.
Lögregluþjónar fyrir utan sendiráð Ekvador í London í morgun. AP/Alastair Grant

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að vísa Julian Assange úr sendiráði Ekvador í London. Þetta hefur AP fréttaveitan eftir háttsettum embættismanni í Ekvador. Því var haldið fram í tísti frá Wikileaks í gær að til stæði að vísa Assange úr sendiráðinu á næstu klukkustundum eða dögum.



Í tístinu stóð enn fremur að Ekvador hefðu þegar gert samkomulag við Breta um að Assange yrði handtekinn þegar hann færi úr sendiráðinu. Í öðru tísti stóð að Wikileaks hefðu fengið staðfest fregnirnar.



Sjá einnig: Assange vísað út úr sendiráði Ekvador innan skamms



Assange hefur haldið til í sendiráðinu frá því í ágúst 2012 af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna. Assange flúði til sendiráðsins og sótti um pólitískt hæli þar vegna þess að hann hafði verið ákærður fyrir nauðgun í Svíþjóð. Sú ákæra hefur þó verið felld niður en handtökuskipun var gefin út gagnvart Assange í Bretlandi vegna þess að hann mætti ekki fyrir dómara.



Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa undirbúið ákæru gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Mögulegt er að hann hafi þegar verið ákærður en að leynd hvíli yfir ákærunni ef og þar til hann verður handtekinn, svo Bandaríkin geti reynt að fá hann framseldan.



Ný ríkisstjórn Ekvador hefur um nokkuð skeið reynt að koma Assange úr sendiráðinu.



Lenín Moreno, forseti Ekvador, hélt því fram í vikunni að ásakanir um spillingu og eignir í aflandsfélögum gegn honum væru komnar til vegna Wikileaks. Hann sakaði samtökin um að hafa hlerað símtöl hans og önnur samskipti, án þess þó að færa nokkrar sannanir fyrir ásökunum sínum.



Ummælin þykja þó til marks um þá spennu sem talin er ríkja á milli Assange og yfirvalda Ekvador.

 




Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×