Erlent

„Hefði Rússland staðið að baki taugaeitursárásinni hefði enginn lifað af“

Andri Eysteinsson skrifar
Varúðar var gætt á vettvangi eitrunarinnar í fyrra. Rowley og Sturgess komust í tæri við eitrið út frá ilmvatnsflösku.
Varúðar var gætt á vettvangi eitrunarinnar í fyrra. Rowley og Sturgess komust í tæri við eitrið út frá ilmvatnsflösku. Getty/Jack Taylor
Charlie Rowley, kærasti Dawn Sturgess sem lést í fyrra af völdum Novichok eitrunar sem rakin var til tilræðisins við líf rússneska njósnarans Sergei Skripal, segist enn vera þeirrar skoðunar að ábyrgðin liggi hjá Rússum.

Rowley, sem varð einnig fyrir áhrifum taugaeitursins í mars í fyrra, hitti sendiherra Rússlands í Bretlandi, Alexander Yakovenko, í rússneska sendiráðinu í Kensington í London. Guardian greinir frá. Rowley segir að Yakovenko hafi virst raunverulega umhugað um líðan Rowley en það hafi ekki orðið til þess að Rowley skipti um skoðun.

„Ég fór þangað til að spyrja. Af hverju drap Rússland kærustuna mína? En ég fékk í raun engin svör, sagði Rowley. „Ég kann vel við sendiherrann en mér fannst sumt sem hann sagði um að Rússland bæri ekki ábyrgð vera hlægilegt. Það var gott að hitta hann en ég held ennþá að Rússar beri ábyrgð,“ bætti Rowley við.

Rowley sagði sendiherrann hafa sagt við sig „hefði Rússland staðið að baki taugaeitursárásinni hefði enginn lifað af.“ Hefði Novichok-eitrið sem var notað verið rússneskt hefði enginn jafnað sig af eitruninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×