Erlent

Mannfall í átökum við Trípólí

Andri Eysteinsson skrifar
Talsmaður stjórnarhersins, Mohamed Ghnounou, staðfesti mannfallið á blaðamannafundi í dag.
Talsmaður stjórnarhersins, Mohamed Ghnounou, staðfesti mannfallið á blaðamannafundi í dag. Getty/Anadolu Agency
Mannfall hefur orðið í átökum stríðandi fylkinga fyrir utan Trípólí höfuðborgar Afríkuríkisins Líbýu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn landsins er 21 látinn og 27 eru særðir.

Átök hafa geisað á svæðinu frá því á fimmtudaginn þegar uppreisnarliðar, sem kalla sig Líbýska Þjóðarherinn (LNA) undir stjórn hershöfðingjans Khalifa Haftar hófu áhlaup á höfuðborgina. Stjórnarherinn, sem nýtur stuðnings Sameinuðu Þjóðanna svaraði árásunum með loftárásum í gær.

Forsætisráðherra Líbýu, Fayez al-Serraj, hefur sakað Haftar um að gera tilraun til valdaráns og segir að her ríkisstjórnarinnar muni bæla uppreisnina niður með valdi. Vegna ástandsins hafa alþjóðastofnanir unnið að því að kalla heim starfsmenn sína.

Einnig hefur bandarískur herafli verið kallaður frá svæðinu.

Sameinuðu Þjóðirnar kölluðu eftir tveggja klukkustunda vopnahlé fyrr í dag svo almennir borgarar gætu forðað sér frá átakasvæðunum. Ekki liggur ljóst fyrir hvort beiðnin var samþykkt.

Átökin hafa að mestu átt sér stað vestan og sunnan megin við Trípólí. Sunnan megin hafa átökin verið í grennd við gamlan alþjóðaflugvöll sem ekki er enn í notkun. Samkvæmt BBC hafa öfl stjórnarhersins hægt verulega á framgangi uppreisnarliða og hyggst stjórnarherinn þurrka uppreisnarmenn út af kortinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×