Erlent

Vinstriflokkarnir gætu unnið kosningasigur á Spáni

Kjartan Kjartansson skrifar
Sáncez forsætisráðherra á kosningafundi sósíalista í Sevilla.
Sáncez forsætisráðherra á kosningafundi sósíalista í Sevilla. Vísir/EPA

Flokkar á vinstri væng spænskra stjórnmála eygja möguleika á að mynda meirihlutastjórn eftir kosningar sem fara fram í lok þessa mánaðar ef marka má skoðanakannanir. Þó að mjótt sé á mununum er ekki útlit fyrir að hægriflokkarnir nái meirihluta atkvæða.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, flýtti þingkosningum eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar hans var fellt í febrúar. Ríkisstjórn hans tók við völdum í fyrra þegar þingið samþykkti vantraust á ríkisstjórn hægriflokksins Lýðflokksins. Kosið verður til þings 28. apríl.

Ný skoðanakönnun félagsvísindastofnunar Spánar bendir til þess að Sósíalistaflokkur Sánchez og vinstriflokkurinn Við getum gætu myndað meirihluta með smáflokkum af vinstri vængnum. Lýðflokkurinn og miðhægriflokkurinn Borgararnir fengju ekki nægilega marga þingmenn til að mynda stjórn saman.

Allt útlit er fyrir að öfgahægriflokkur vinni sæti á spænska þinginu í fyrsta skipti frá því að lýðræði var tekið upp aftur á Spáni á 8. áratug síðustu aldar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Könnunin bendir til þess að öfgaflokkurinn Vox fái 29 til 27 sæti af 350.

Veruleg óvissa kemur fram í könnuninni því einn af hverjum fjórum svarendum sagðist ekki hafa gert upp hug sinn og meira en átta prósent vildu ekki svara.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.