Erlent

Flugmaðurinn sem flaug Sala var ekki með næturflugsréttindi

Kjartan Kjartansson skrifar
Dauði Sala var knattspyrnuheiminum áfall.
Dauði Sala var knattspyrnuheiminum áfall. Vísir/EPA
Fullyrt er að flugmaðurinn sem flaug flugvélinni sem hrapaði yfir Ermarsundi með argentínska knattspyrnumanninum Emiliano Sala innanborðs í janúar var ekki með réttindi til að fljúga að nóttu til. Þá er talið að flugmaðurinn hafi verið litblindur.Sala var 28 ára gamall og var á leiðinni til Cardiff frá Nantes í Frakklandi þegar flugvélin hrapaði 21. janúar. Hann og flugmaðurinn, David Ibbotson, fórust með vélinni.Breska ríkisútvarpið BBC segir að Ibbotson hafi aðeins haft leyfi til þess að fljúga í dagsbirtu. Bresk flugmálayfirvöld vildu ekki tjá sig um frétt þess en rannsóknarnefnd flugslysa þar í landi sagði að réttindi flugmannsins væru áfram til skoðunar í rannsókn hennar á slysinu.Upplýsingar um réttindi flugmanna eru ekki opinber í Bretlandi en í Bandaríkjunum, þar sem Ibbotson var einnig með réttindi, kemur fram að hann hafi þurft að fljúga með gleraugu vegna nærsýni. Þá var kveðið á um að allar takmarkanir í bresku skírteini hans giltu vestanhafs.Heimildarmaður BBC segir að geta flugmanns til þess að greina grænt ljós frá rauðu væri lykilatriði í að fljúga í myrkri. Ólöglegt sé að fljúga við skilyrði sem sem menn hafi ekki réttindi til. Það geti haft áhrif á tryggingarmál flugvélarinnar.Upphaflega átti Ibbotson að fljúga með Sala til Cardiff klukkan níu að morgni. Því var hins vegar frestað til klukkan 19:00 svo Sala gæti kvatt félaga sína í Nantes. Þá var klukkutími og tíu mínútur liðnar frá sólsetri.Samkvæmt evrópskum flugstjórnarlögum er nótt skilgreind sem tíminn frá hálftíma eftir sólsetur til hálftíma fyrir sólarupprás.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.