Enski boltinn

Liverpool gæti verið nokkrum vikum frá því að næla í Paulo Dybala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala lætur hér vaða á markið.
Paulo Dybala lætur hér vaða á markið. Getty/ Loris Roselli
Sögusagnir frá Ítalíu gera mikið úr áhuga Liverpool á að fá til sín argentínska framherjann Paulo Dybala sem væri vissulega mjög áhugaverð kaup hjá toppliði ensku úrvalsdeildarinnar í dag.  

Tutto Mercato telur sig hafa heimildir fyrir því að Liverpool sé að vinna hörðum höndum að því að fá Dybala til sín sem fyrst. Svo langt ganga menn að þar er talað um að Liverpool gæti bara verið nokkrum vikum frá því að næla í Paulo Dybala.





Jürgen Klopp vill bæta framherja í hópinn og þrátt fyrir að hann hafi útlokað einhver risakaup í sumar gæti verið freistandi að fá hinn 25 ára gamla Dybala. Hann hefur sýnt snilli sína inn á vellinum og passar vel inn í þessa spennandi kynslóð liðsins í dag.

Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvað Juventus vill fá þennan öfluga leikmann sem hefur fallið í skuggann á Cristiano Ronaldo á þessu tímabili.

Paulo Dybala hefur ekki staðið sig eins vel á þessu tímabili og á tímabilunum á undan. Hann hefur aðeins skorað 9 mörk í 35 leikjum á leiktíðinni en var með 26 mörk á síðasta tímabili.

Juventus fékk Paulo Dybala frá Palermo frá 2015 og hingað til hefur hann verið settur í hundrað milljóna evru flokkinn. Verðmiðinn gæti aftur á móti hafa lækkað nokkuð eftir frekar dapra frammistöðu Argentínumannsins í vetur.





Það er óvissa með framtíð framherjanna Daniel Sturridge og Divock Origi í leikmannahóp Liverpool. Fari þeir báðir þá þarf Liverpool augljóslega að bæta við sig framarlega á vellinum.

Á sama tíma og fréttir berast af áhuga Liverpool á Paulo Dybala þá eru spænskir fjölmiðlar farnir að skrifa um áhuga Real Madrid á Sadio Mane.

Liverpool hefur misst marga öfluga leikmenn á síðustu árum en nú vill félagið hætta að selja sínar stærstu stjörnur. Verðmiðinn á Sadio Mane ætti því að fæla flest félög frá.

Getty/Loris Rose



Fleiri fréttir

Sjá meira


×